151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

kynrænt sjálfræði.

22. mál
[11:07]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir svarið. Varðandi seinna atriðið sem ég kom inn á, um það hvenær barn hefði þroska til að taka ákvörðun um til að mynda kvilla eins og klofið typpi — skárra væri það nú að foreldrar og börn hefðu ekki aðgengi að sérfræðingum og þjónustu. Það hafa þau auðvitað líka í dag. Þetta snýst um takmörkunina. Gagnrýni okkar í Miðflokknum beinist að því að verið sé að takmarka frelsi til að nýta nútímalæknavísindi til að aðstoða börn sem fæðast með t.d. kvilla sem þennan.

En mig langar til að spyrja hv. þingmann um annað í þessu seinna andsvari mínu. Í umsögn Intersex Íslands segir, með leyfi forseta:

„Nefndarstarf var mun minna en það hefði þurft að vera. Bæði tók nefndin seint til starfa og einnig er ljóst að Covid-19 setti mikið strik í starf nefndarinnar. Fundir voru töluvert færri á vordögum og mun minni tími var til umræðu en hefði þurft til. Sem dæmi þá var engin umræða um „micro-penis” fyrr en á lokafundi nefndarinnar þegar læknir innan nefndarinnar bar það mál upp.“

Hæstv. forseti. Mig langar að beina þeirri spurningu til framsögumanns meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar hvort þessi hluti umsagnar Intersex Íslands undirstriki það að málið sé jafn djúpt og vel unnið og ítarlega greint og haldið hefur verið fram í umræðunni. Mér finnst þar vanta mikið upp á miðað við þessa lýsingu.