151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:42]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir orð hv. þingmanns að því er varðar að við verðum að halda ró okkar þó að það geti orðið einhverjar hliðranir á afhendingu bóluefna, ég er algerlega sammála því. Við þurfum að sýna sama úthald og seiglu í þessu efni eins og við höfum gert hingað til í baráttunni við faraldurinn.

Hv. þingmaður veltir upp samspili annars vegar bólusetninga og ónæmis í samfélaginu og hins vegar sóttvarnaráðstafana. Það gefur augaleið að auðvitað hangir þetta saman. Það er ekki þannig að það komi ein töfradagsetning þar sem allir hafa verið bólusettir og þá loksins verði öllum ráðstöfunum aflétt. Auðvitað þurfum við að ræða um samspil þessara ráðstafana, þ.e. að afléttingar séu í takt við það þegar viðkvæmustu hóparnir okkar hafa verið bólusettir. Ég held að það gefi augaleið. Við vinnum núna að áætlun um afléttingu í skólum og erum þá sérstaklega og fyrst og fremst að horfa á framhaldsskólastigið þar sem sá hópur, eins og margoft hefur verið bent á, hefur í stórum stíl setið uppi með það að geta ekki mætt í skólann. Það er alvarlegt út frá mjög mörgum sjónarmiðum, ekki bara að því er varðar þau mál sem eru rædd hér heldur líka bara virkni og stöðu og lýðheilsusjónarmiðum að svo mörgu öðru leyti. Hvað varðar samspilið þá erum við stundum að tala um litakóðakerfið og þó að það sé mér ekkert sérstaklega tamt þá hlýtur það að verða þannig að aðgerðir léttist eftir því sem bólusetningum vindur fram. Það gefur augaleið.