151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[12:57]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það sem ég held að við flest viljum vita þegar við förum inn í hátíðarnar — og þar af leiðandi þakka ég hæstv. heilbrigðisráðherra fyrir að koma hingað og eiga samræður við okkur — er myndin af því hvernig nýja árið lítur út, hvernig ferli bólusetninga mun hafa áhrif á líf okkar, mun hafa áhrif á sóttvarnaráðstafanir þannig að við höfum einhverja mynd af því, að við höfum einhverjar hugmyndir um hvenær við verðum búin að bólusetja alla áhættuhópana, allt framlínufólkið. Mér sýnist af þeim upplýsingum sem komu fram í umræðunni að kannski gæti það verið í apríl, ég veit það ekki. Ég hef fyrirvara á því. Það væri rosalega gott að sjá það. Eins og ráðherrann nefndi veltur það á dreifingu á hinum bóluefnunum, hvenær markaðsleyfi fæst o.s.frv. Við höfum hugmyndir um þetta þegar sú mynd er orðin skýrari.

Um leið og búið er að bólusetja framlínufólkið og helstu áhættuhópana hljótum við að vera komin í var hvað varðar þolmörk heilbrigðiskerfisins. Það var einn af helstu áhættuþáttunum sem réttlættu það að sóttvarnaráðstafanirnar sem við fórum í voru eins harðar og raun bar vitni, og þær komu sannarlega betur út fyrir líf og heilsu fólks og fyrir efnahaginn samkvæmt upplýsingum sem verið er að taka saman núna. The Wall Street Journal fór yfir það að landsframleiðslan dróst meira saman í Svíþjóð en í Noregi og Danmörku og atvinnuleysi jókst meira í Svíþjóð en í Noregi og Danmörku. Það virðist því hafa verið mjög farsæl leið sem sóttvarnayfirvöld fóru.

En hvenær förum við að losna út úr þessu? Sú mynd hefur verið sett upp með litatöflu. Nýja normið er bara persónulegar sóttvarnir. Við erum komin upp í 50–100 manna hópa í staðinn fyrir 5–20 þegar við vorum í rauða litnum. Grímuskyldan er óþörf, maður getur verið nær fólki sem maður þekkir ekki endilega mikið. Hvenær gætum við verið að færa okkur inn á þetta gráa svið þar sem samfélagið er almennt komið í miklu (Forseti hringir.) frjálsara og eðlilegra horf? Tímalínan, og þá sér í lagi út frá því að vera búin að bólusetja framlínufólkið og helstu áhættuhópana, hvernig myndi hún líta út?