151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

horfur um afhendingu bóluefnis vegna Covid-19, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[13:10]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Aðeins fyrst um það að allir kannast við gula bólusetningarvottorðið sem við eigum, þetta gamla góða. Það verður auðvitað til áfram og skiptir líka máli í þessu efni. En við erum líka að horfa til möguleika á rafrænum lausnum. Hv. þingmaður spyr um forgang í bólusetningar. Fyrir liggur reglugerð frá mér sem lýtur að tíu forgangshópum og í hvaða röð megi vænta þess að fólk sé í forgangi en sóttvarnalæknir hefur ákveðinn sveigjanleika innan þeirrar röðunar. Strax í gær var birt hvernig við myndum nýta þessa fyrstu 10.000 skammta. Það er þá með þeim hætti sem ég fór yfir hér í byrjun, í fyrsta lagi er það framlínufólkið okkar og í öðru lagi íbúar á hjúkrunarheimilum og öldrunarstofnunum. Það fólk verður í forgangi og við ættum að ná utan um þann hóp með fyrstu skömmtunum.