151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fæðingar- og foreldraorlof.

323. mál
[14:47]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Það hefur verið ansi fróðlegt og ótrúlegt að fylgjast með umræðum um þetta mál. Þrátt fyrir almenna ánægju með málið held ég að fá mál hafi verið í meiri ágreiningi það sem af er þingvetri en þetta mál. Ég hlýt að fagna því að hér virðist vera mikill meiri hluti þingmanna, grenjandi meiri hlutinn myndi kannski einhver segja, fyrir því að auka frelsi foreldra í þessum efnum. Það finnst mér ágætt og hér liggja fyrir margar breytingartillögur í þá áttina. Tilvísanir til jafnréttissjónarmiða og stöðu kvenna tel ég vera gamlar lummur hér og lýsa ákveðnu þroti í jafnréttisumræðunni. Eftir tveggja áratuga reynslu af þessum málum eru menn enn þá að vísa í þetta. Hvernig væri nú að prófa aðrar leiðir og leyfa fjölskyldum í landinu að ráða því sjálfar hvernig þær ráðstafa fæðingarorlofi? Ég mun styðja breytingartillögur sem lúta að meira frelsi í þeim efnum.