151. löggjafarþing — 42. fundur,  18. des. 2020.

fjáraukalög 2020.

337. mál
[18:44]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í samfélaginu eru mjög margir eldri borgarar, að vísu ekki svo margir, eins og hæstv. fjármálaráðherra hefur ítrekað sagt, en samt sem áður það margir að ástæða er til að við tökum utan um þá nú fyrir jólin eins og við gerðum vel við öryrkja. Þetta er tillaga um að við komum til móts við þau sem hafa undir 335.000 kr. á mánuði, náttúrlega fyrir skatt, og fá útborgað 270.000 kr., að við látum þau einnig hafa 50.000 kr. eingreiðslu, skatta- og skerðingarlaust, núna fyrir jólin. Þetta er okkar fátækasta fólk sem leggst áhyggjufullt á koddann á hverju einasta kvöldi og kvíðir jólunum. Ég trúi ekki að Alþingi Íslendinga sé í rauninni að mismuna fátækasta þjóðfélagshópnum. Mér er algerlega fyrirmunað að trúa því. Það er mjög auðvelt að ýta á græna takkann og segja: Gleðileg jól eldri borgarar og þið sem hafið erjað jörðina fyrir okkur hin.