151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

aurskriður á Austurlandi.

[15:43]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Gleðilegt ár öllsömul. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og tek undir með henni að það er mikil mildi að enginn lét lífið í þeim hörmungum sem dundu yfir Seyðisfjörð fyrir jólin. Ég vil segja það að rannsóknir höfðu verið gerðar frá 2003–2017 á þessu svæði varðandi möguleika á skriðuföllum og á grundvelli þeirra var áhættumat endurskoðað og staðfest af mér í mars 2020. Það var grundvöllurinn fyrir þeim rýmingum sem þarna áttu sér stað. Þetta voru þó skriðuföll sem voru mun stærri og umfangsmeiri en búist var við og það er eitt af því sem kennir okkur það núna að við þurfum að horfa til þess að endurskoða þetta hættumat. En líkt og við sáum á Eskifirði sem dæmi þarf líka að fara í endurskoðun á hættumati þar og almennt þar sem von er á skriðuföllum í þéttbýli. Þetta er mjög mikilvæg vinna sem þarf að fara í gang og er í rauninni byrjuð því að í fyrra setti ég aukið fjármagn til Veðurstofunnar í rannsóknir á skriðuföllum en mikilvægt er að jafnframt sé farið sérstaklega yfir málin á Seyðisfirði. Það er hafin af hálfu Veðurstofunnar aukin vöktun og líka búið að kaupa ákveðinn rannsóknabúnað til að geta fylgst betur með þeim þáttum. Nú þegar er unnið að bráðabirgðavörnum og vinna við að endurgera áhættumatið er hafin. Það er samt alveg ljóst að mikil vinna er fram undan og við munum fá áfangaskýrslu í vor þar sem kveðið verður á um til hvaða varna er hægt að grípa, það er eitt af þeim atriðum sem er verið að vinna í núna. En ég mun halda áfram með svarið á eftir.