151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:17]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Forseti. Ég óska þess að hv. þingmaður reyni ekki að gera mér upp skoðanir. Ég vona að hann líti ekki svo á að Íslandsbanki sé að grotna niður og verða að engu eins og hann nefndi, og alla vega ekki þannig að það séu forsendur hans flokks hvað það varðar að selja hann. Það er ekki hægt að vænta góðs verðs á markaði fyrir vöru sem er mögulega að fara að grotna niður og verða að engu. Ástæðan fyrir því að þetta er tortryggilegt er ekki sú að ég eða einhver annar úr röðum Pírata sé að gera þetta tortryggilegt. Þetta er tortryggilegt ferli vegna þess að við höfum áratugalanga reynslu flokks hv. þingmanns af því að einkavæða hluti á hátt sem fer illa. Það hefur vissulega gengið vel í einstaka tilvikum, afskaplega afmörkuðum, en við verðum bara að skilja að það er tortryggni úti í samfélaginu. Við bjuggum hana ekki til, þið bjugguð hana til.

Til þess að þetta ferli geti farið fram í sátt við samfélagið verður að svara þessum spurningum sem fólk hefur borið fram á heiðarlegan, upplýstan og góðan máta. Það þýðir að við lögum ferlið, það þýðir að við tökum ferlið í gegn. Hv. þingmaður talar um að það sé einhvern veginn voðalega flókið að vera með eitthvert ferli. Ég hef keypt og selt hluti í gegnum tíðina og ef það er stór og verðmætur hlutur þá vandar maður sig við vinnuna. Það er það sem ég er að biðja um, að þetta verði nógu vandað til að fólk úti í samfélaginu geti treyst þessu. Íslandsbanki er reyndar eitthvað sem við stofnuðum. Þetta er viðskiptabankinn minn og á minni lífstíð hefur hann farið frá því að vera í ríkiseigu yfir í að vera einkavæddur og yfir í það að vera aftur í ríkiseigu, og nú á aftur að einkavæða hann í annað skipti. Gott og vel, ég er til í það. En gerum það rétt.