151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:06]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Um leið og ég tek undir með hv. þingmanni — og ég fór í andsvar við samflokksmann hans, hv. þm. Smára McCarthy, um einmitt þetta — sakna ég þess að ekki sé líka hægt að sýna því ferli sem er fram undan skilning. Það er ekkert að fara frá okkur. Það er búið að gefa út stöðuskýrslu um hvað það felur í sér að fara í aðra valkosti. Ég veit að ég reyni á þolinmæði hv. þingmanns en samskiptum okkar lýkur ekki bara með þessu andsvari þótt þau kunni oft að vera þannig að maður nái ekki að svara öllu. En þá ætla ég að segja, af því að tímasetningin er svo mikið til umræðu og að við séum eitthvað að flýta okkur við þetta, að það myndu örugglega margir hagfræðingar vera tilbúnir til að leiða okkur í sannleika um að vaxtakjörin inn í framtíðina, bæði fyrir ríkissjóð og almenning, séu kannski mikilvægasti þátturinn í þessu ferli. Ég er nokkuð sannfærður um það og við skulum endilega reyna draga fram skoðun hagfræðinga á þessu. Fjölbreyttari fjármögnun ríkissjóðs mun leiða til þess að vextir hækka síður þegar viðspyrnan hefst, að demba því ekki öllu í skuldabréf í mikilli lánsfjárþörf inn í framtíðina heldur horfa til annarra valkosta eins og hv. þingmaður er að tala um, losa um eignarhluti og horfa jafnvel til erlendrar lántöku, við erum með stóran gjaldeyrisvaraforða. Ég hef áhuga á að fá skýrari og nákvæmari svör við þessu. Ég held að þetta sé algjört lykilatriði þegar upp er staðið fyrir ríkissjóð og fyrir almenning.