151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[19:08]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Að selja banka eða selja ekki banka. Hvenær á að selja banka og hvenær á ekki að selja banka? Þar liggur efinn. En að aulafyndni slepptri þá er sá sem hér stendur og sá flokkur sem hann tilheyrir þeirrar skoðunar að umsvif ríkisins á fjármálamarkaði séu allt of mikil. Það sé ekki rétt að ríkið sé í rekstri af þessu tagi í því umfangi sem raun ber vitni. Auðvitað var ekki sóst eftir þeirri stöðu sem uppi er núna og varð til í eftirmálum hrunsins, að ríkið væri með tvo banka í fanginu, raunar þrjá, en það er búið að koma einum bankanum í hendur einkaaðila. En þetta er nú staðan. Það liggur fyrir að úr þessu þarf að greiða og það hefur lengi legið fyrir, líka í tíð a.m.k. tveggja ríkisstjórna og sennilega allar götur frá því árið 2012 og síðan ríkið eignaðist þessa banka, að til stæði að selja þá. Ég ætla að umorða þetta aðeins: Selja stóran hluta af þessum eignum ríkisins, því að það hefur reyndar líka verið sleginn sá varnagli að ríkið ætti áfram að eiga umtalsverðan hlut í einum banka. Kemur það m.a. fram í eigendastefnu ríkisins sem endurnýjuð var og gefin út í febrúar árið 2020. Segir þar að stefnt sé að því að ríkið eigi verulegan eignarhlut í Landsbankanum til langframa. Þar stendur líka að ekki verði tekin ákvörðun um söluferli á neinum hlutum ríkisins í Landsbankanum fyrr en eftir að ríkið hefur selt allan eignarhlut sinn í Íslandsbanka. Þannig að það liggur nokkuð skýrt fyrir, sýnist manni, að eins og sakir standa sé ekki ætlunin að selja hlut í Landsbankanum og að taka þurfi um það sérstakar ákvarðanir verði það gert. Búið er að mæla fyrir um að það komi ekki til greina fyrr en sölu Íslandsbanka er lokið. Unnið er eftir tilteknu ferli við þetta sem legið hefur fyrir og eins og fram hefur komið í umræðunni þá liggur fyrir að Bankasýslan hafði lagt til að þetta ferli hæfist fyrir nánast réttu ári síðan, en hætti síðan við þegar Covid skall á.

Nú hefur aftur verið lagt til að hefja þessa vegferð og þingið er nú með annars vegar tillögurnar frá Bankasýslunni sem sendar eru hæstv. fjármálaráðherra. Fjármálaráðherra hefur sagst ætla að setja þetta ferli í gang, en samkvæmt lögum ber honum að senda greinargerð sína til umsagnar tveggja nefnda þingsins. Þessar tvær nefndir eru þessa dagana að fjalla um málið. Þannig að hér í sölum þingsins verður ekki tekin nein ákvörðun um hvort þessu ferli verður haldið áfram eða ekki. Það er á ábyrgð hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórnar Íslands. Hitt er svo annað mál að það er sjálfsagt og eðlilegt að við þingmenn, og sérstaklega þær tvær nefndir sem fjalla um málið, hv. fjárlaganefnd og hv. efnahags- og viðskiptanefnd, gaumgæfi alla þætti þessa máls. Því að það eru auðvitað mörg álitaefni sem koma upp. Fyrsta álitaefnið er það sem ég tel reyndar að við séum búin að útkljá, þ.e. hvort yfirleitt eigi að selja hlut í Íslandsbanka. Ég held að svarið við því sé já, það er a.m.k. já af hálfu okkar í Viðreisn.

Þá er spurningin: Er þetta rétti tímapunkturinn? Þá vandast málið nokkuð því að um það eru skiptar skoðanir. Þessar tvær nefndir Alþingis hafa í höndunum ýmis gögn og hafa fengið til sín gesti þar sem rætt hefur verið um margar hliðar þessa máls. Þar hafa komið að málum Seðlabanki, Bankasýslan, fjármálaráðuneytið, Samkeppniseftirlitið, sem var með mjög athyglisverða umsögn, Kauphöllin, og síðan hefur verkalýðshreyfingin gefið út sérstaka greinargerð sem sérfræðingahópur þessara aðila hefur tekið saman um söluna og færir rök fyrir því að þetta sé ekki heppilegt á þessum tímapunkti. En eins og fram kom í máli mínu hér áðan þá er það á ábyrgð ríkisstjórnarinnar og hæstv. fjármálaráðherra að halda þessu máli áfram eða ekki. Okkar hlutverk hér er þá að koma með ábendingar um það sem betur getur farið í þessu ferli. Það eigum við að sjálfsögðu að gera og á þessu máli eru fjölmörg atriði eða sem huga þarf mjög vel að. Ég vil nefna hér nokkur atriði. Um það hefur verið rætt að ekki liggi nógu ljóst fyrir hversu stóran hlut eigi að selja í bankanum. Ég held að þingið eigi að beina því til hæstv. fjármálaráðherra að fastsett verði hversu mikið á að selja. Þá held ég að ágætt sé að miða bara við þessi 25% sem oft hafa verið nefnd, það megi selja allt að 25% hlut í bankanum, fjórðung bankans, ekki meira í þessari umferð.

Síðan eru önnur atriði sem huga þarf að. Markmiðið er jú að reyna að ná fram sem dreifðastri eignaraðild og þess vegna þarf að setja skilyrði við sölu hlutanna. Því á líka að beina til hæstv. fjármálaráðherra. Ég held t.d. að það væri mjög skynsamlegt að beina því til hans að setja reglur í útboðið um að enginn geti eignast meira en 5% í bankanum í þessari umferð, þ.e. 20% af útboðnum hlutum. Það er að sjálfsögðu gert til þess að reyna að stuðla að sem dreifðastri eignaraðild. Þá held ég að það sé líka mjög mikilvægt að sett verði skilyrði, og því eigum við að beina til ráðherrans, að allt verði gert til þess að hlutur þeirra sem taka þátt í útboðinu með lægri upphæðum, haldist óskertur, þ.e. að fari svo að það verði umframeftirspurn þegar þar að kemur, þá væri t.d. hlutur þeirra óskertur sem vildu kaupa fyrir allt að 10 millj. kr., sem er umtalsverð upphæð. En margar 10 milljónir skipta líka máli í eignarhaldi banka af þessu tagi. Hins vegar verði þeir skertir sem bjóða meira, verði þessi umframeftirspurn, og þá verði það gert pro rata. Þetta held ég að sé mjög skynsamlegt til þess að reyna að stuðla að því að eignaraðildin verði sem dreifðust og að almenningi verði gefinn kostur á því að taka þátt, kjósi hann það, í hlutfalli við efni sín.

Síðan verður líka að leggja á það skýra áherslu að þinginu sé haldið upplýstu um það sem fram fer á næstu sex mánuðum fram að útboðinu því að það skiptir máli hvaða lágmarksverð verður sett o.s.frv. því að það þarf líka að liggja ljóst fyrir að unnt sé að hætta við komi ekki viðunandi tilboð í bankann.

Ég held líka að það sé mjög mikilvægt að því verði beint til hæstv. fjármálaráðherra að það verði algjörlega skýrt að ekki verði hafist handa við frekari sölu á hlutum í Íslandsbanka. Mun það þá væntanlega, þó ekki útilokandi, hafa það í för með sér að menn binda þá hendur sínar varðandi söluna fram á næsta kjörtímabil, sem ég held að sé mjög mikilvægt. Það verður þá gert þannig að það verði skylda að bíða með frekari sölu þar til að loknum 6–9 mánuðum frá því að hlutabréf hafa verið seld. Ef við gefum okkur að það takist þá líði a.m.k. 6–9 mánuðir, og að í lok þess tímabils verði það metið hvernig söluferlið tókst, hver verðþróunin hefur verið, og síðast en ekki síst hver þróunin hefur verið í eignarhaldi bankans á þessum hlutum.

Þetta tel ég að sé mjög mikilvægt svo við pössum upp á að varðveita traust til þessa ferlis alls eins og kostur er. Auðvitað er fólk tortryggið, og það á ekki að loka augunum fyrir því. Það er ekki alveg að ástæðulausu að fólk er tortryggið. Okkur hefur mistekist með eftirminnilegum hætti að einkavæða bankana og það sem gerist í framhaldinu þannig að það er mjög eðlilegt að fólk sé vart um sig og það á að taka tillit til þess. Þess vegna þarf þetta að gerast í skrefum og af yfirvegun allan tímann. Það er líka ein sjálfstæð ástæða fyrir því að fólk er tortryggið, það er auðvitað sú ástæða að tveir flokkar sem nú eru í ríkisstjórn voru óneitanlega í ríkisstjórn þegar einkavæðingin hin fyrri fór fram. Og það er nú einu sinni þannig að persónur og leikendur skipta hér máli og það er eðlilegt að fólk sé tortryggið. Það á að virða það og reyna að búa þannig um hnúta að ástæða til tortryggni sé minni en ella.

Við höfum lengi átt okkur þann draum í tengslum við íslenskt bankakerfi að hingað myndu koma erlendir bankar sem hefðu áhuga á því að kaupa hlut eða kaupa upp eitthvað af íslensku bönkunum, eða í það minnsta að koma sér upp útibúi hér á landi. Þetta er áratugagamall draumur og hann hefur ekki enn ræst. Enn er það fullyrt að sá draumur muni ekki rætast og er skemmst að minnast viðtals við fulltrúa Deutsche Bank á Norðurlöndum sem taldi það útilokað að erlendir bankar hefðu áhuga á að koma hingað.

Þá getur maður spurt: Hvernig stendur á því ef við erum með svona góða banka sem eru svona vel fjármagnaðir og vel reknir? Af hverju koma þá ekki erlendu bankarnir og vilja kaupa? Það geta verið margar ástæður fyrir því. Sjálfsagt er smæð markaðarins ein stór ástæða. En ég held að það sé líka orðið löngu tímabært að við horfumst í augu við það að fyrirtæki á þessu sviði eru mjög tortryggin í garð myntar okkar, sveiflnanna í efnahagslífinu og þeim finnst trúlega það sé ekki áhættunnar virði að koma hér til Íslands og hætta fé sínu í fjármálastarfsemi meðan við erum með krónuna. Það er auðvitað eitt af þessu stóra sem við verðum að fara að horfast í augu við og átta okkur á því að það hefur margar og víðtækar afleiðingar fyrir okkur hér á Íslandi að vera að burðast með þessa mynt sem gerir okkur mun meira ógagn en gagn.