151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:12]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S):

Virðulegur forseti. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni í allan dag um skýrslu eða greinargerð hæstv. fjármálaráðherra um fyrirhugaða sölu á 25% hlut í Íslandsbanka. Fyrirhugaða sölu, segi ég, vegna þess að fyrir mörgum árum var ákveðið að heimila sölu á eignarhlutum ríkisins sem eftir standa í bönkunum tveimur, þ.e. Landsbanka sem verður eftir sem áður, eftir að þetta mál gengur í gegn, 100% í eigu ríkisins, og Íslandsbanka. Ég fagna auðvitað þessum áformum mjög og tel ekki seinna vænna að taka þessi skref sem eru tekin núna með 25% sölu en verð þó að segja að mér finnst allt of skammt gengið í þessari lotu þótt ég ætli ekki að gera stórmál úr því sérstaklega.

Hér hafa hv. þingmenn margir farið mikinn um tímasetningu þessarar sölu. Ég kann að hafa misst af einhverjum ræðum, en ég tel mig þó ekki hafa greint beina eða mikla andstöðu endilega við söluna almennt, a.m.k. ekki meðal þingmanna, andstöðu við þessi áform. Mér finnst það tímanna tákn ef það er orðin almenn samstaða á þingi um að ríkið eigi að draga úr eignarhlutdeild sinni á fjármálamörkuðum. Það kann að vera að einhverjir líti þannig á að nauðsynlegt sé að ríkið eigi einhvern hluta í öðrum hvorum bankanum sem eftir stendur en samt sem áður fagna ég því sem ég skynja sem almenna samstöðu um að hrinda þessu í framkvæmd.

Ágreiningurinn heyrist mér að lúta að tímasetningunni og sú umræða finnst mér alveg kostuleg. Eins og ég kom inn á í andsvari við hv. þingmann sem á undan mér talaði fyrir Samfylkinguna og ég kallaði það nú söluráðgjöf Samfylkingarinnar vegna þess að nokkrir þingmenn þar hafa bent á að þetta sé ekki tíminn. Það hafa fleiri hv. þingmenn úr öðrum flokkum gert það án þess þó að svara því hvenær tíminn verði nákvæmlega réttur. Ég held að það sé útilokað að segja fyrir um það hvenær sé réttur tími til að selja hluti á markaði. Það verður auðvitað seljandi í hverju tilfelli fyrir sig að finna, vega og meta hagsmuni sína á hverjum tíma sem getur verið mismunandi frá sjónarhóli sama seljenda og fer allt eftir efnum og aðstæðum hjá hverjum og einum.

Hér hafa verið færð ágæt rök fyrir því, sem lýtur að þessari sölu sérstaklega, að það sé heppilegt fyrir ríkissjóð að gera það núna með það að markmiði, sem er eitt af mörgum markmiðum með þessari sölu, að afla ríkissjóði tekna sem hann þarf sárlega á að halda til að halda uppi þjónustu, mikilvægri grunnþjónustu næstu árin sem ekki er fyrirséð að hægt sé að halda uppi með þeim hætti sem menn vænta á næstu árum í ljósi þess fjárhagslega skells sem ríkissjóður hefur orðið fyrir vegna heimsfaraldursins, sem er vonandi núna í rénun. Þetta er eitt af markmiðunum, að afla ríkissjóði fé. Annað markmið er auðvitað að draga úr áhættu ríkissjóðs af því að eiga í jafn sveiflukenndri starfsemi og atvinnugrein og fjármálamarkaðirnir eru. En ríkissjóður er allt of umsvifamikill þar og það var aldrei meiningin. Ríkissjóður ætlaði sér aldrei að sitja uppi með tvo banka. Ríkissjóður lenti með þá í fanginu eftir fjármálahrunið og það var ekki markmiðið að halda á þeim til lengri tíma. Þetta er eitt af mjög mörgum markmiðum. Eitt markmið líka er að efla og renna stoðum undir markaðsviðskipti á Íslandi og þátttöku í kauphallarstarfsemi, efla virkan markað með almenningshlutafélög á Íslandi. Sá markaður varð mjög dapur eftir fjármálahrunið og hefur í rauninni ekki náð sér á strik eftir það og þetta er ein leiðin til að efla hann.

En þá kem ég að því sem ég hef rætt í tengslum við þetta mál, snertir það auðvitað ekki beint af því að það varðar bara sölu á bönkunum, en ég hef hins vegar varpað fram hugmynd, sem er þó ekki ný og ekki mín en hefur verið í áratugi í umræðu þegar kemur að einkavæðingu ríkisfyrirtækja á Íslandi, sem voru auðvitað mýmörg hér á árum áður en eru sem betur fer orðin sárafá í dag. Það er hugmyndin um að koma eignarhaldi þessara ríkisfyrirtækja í hendurnar á almenningi milliliðalaust með því að dreifa eignarhlutum ríkisins til almennings, til íslenskra ríkisborgara 18 ára og eldri eða hvernig sem það yrði útfært, og fleyta þannig hlutum á markað og auka hagsæld heimilanna. Með því gæfist líka tækifæri á að renna enn frekari styrkum stoðum undir virkan fjármálamarkað hér af því að trúlega myndu einhver bréf skipta um hendur fljótlega. Það fer allt eftir efnum og aðstæðum hjá hverjum og einum, eins og ég sagði í upphafi. En ég nefni þetta í ljósi umræðu, sem er umræða efld aftan úr forneskju en ég heyrði samt einhvern óm af henni í dag, um að verið sé að koma hlutum í hendur á einhverjum tilteknum aðilum, jafnvel að selja of ódýrt og koma í hendur á vildarvinum, allar þessar gömlu lummur sem dúkka upp og eiga samt í rauninni ekkert við. Ég held að menn hljóti að geta sammælst um það þvert á alla flokka, og er það nú kannski helsti löstur á þessari hugmynd minni að fólk í öllum flokkum gæti mögulega sameinast um þetta pólitískt, að efla auðstjórn almennings með þeim hætti að eignarhlutum ríkisins væri komið til almennings milliliðalaust.

Ég hvatti hv. efnahags- og viðskiptanefnd til að ræða þessa hugmynd svona í framhjáhlaupi með þessu máli í meðferð sinni. Ég veit ekki hvernig það hefur gengið. En ég hvet hins vegar hæstv. fjármálaráðherra til þess að íhuga vel þessa hugmynd þegar kemur að hinum 75% hlut ríkisins í Íslandsbanka sem ég vona að komist í hendur almennings með einum eða öðrum hætti sem fyrst, annaðhvort samhliða þessari sölu eða fljótlega eftir að þessi sala verður um garð gengin. Og ég held að þingmenn ættu að fara að huga að áframhaldandi framsali á eignarhaldi í Íslandsbanka og Landsbankanum líka og ættu að huga sérstaklega að þessari hugmynd. Til þess að hún yrði að veruleika þyrfti að sjálfsögðu lagaheimild og aðkoma þingsins yrði tryggð að því.