151. löggjafarþing — 44. fundur,  18. jan. 2021.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[21:22]
Horfa

Sigríður Á. Andersen (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Samhliða sölunni á þessum 25% eru eftir 75%. Ef við hugsum okkur þá sviðsmynd að 50% af því sem eftir stendur, sem sagt 50% af bankanum, yrði dreift til alls almennings í formi hlutabréfa þannig að almenningur héldi á 15% hlut þá kæmi hann sér að sjálfsögðu saman um stjórnina, ætti atkvæðisrétt á aðalfundi og þar fram eftir götunum, nákvæmlega eins og í hverju öðru almenningshlutafélagi. Við getum tekið dæmi af því sem kallað var óskabarn þjóðarinnar, hlutafélagi sem var stofnað í upphafi 20. aldar, Eimskipafélagi Íslands. Ég held að nánast allir Íslendingar hafi tryggt sér hluti í því félagi og haft atkvæðisrétt á aðalfundum. Auðvitað koma menn sér saman um stjórnir eins og í öðrum félögum. Það er þetta sem ég á við með milliliðalausri eignaraðild, þ.e. að Jón Jónsson haldi sjálfur á sínum hlut. Auðvitað er hægt að tryggja almenningi hlutdeild í þessari sölu með öðrum hætti. Það væri líka hægt að hugsa sér að selja og dreifa söluverðinu bara á alla einstaklinga. Það væri kannski jafngildi þess að tala um milliliðalausa eignarheimild almennings á hlutum. En ég held að hitt væri áhugaverð tilraun og ég held einmitt að tækifæri sé til þess að ráðast í hana nákvæmlega núna í því árferði sem nú er og líka með tilliti til þess hlutabréfamarkaðar sem við þurfum að efla. Ég held að það sé mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf og allan almenning að fá tækifæri til að standa undir og standa með íslensku atvinnulífi með því að eiga hlutdeild í fyrirtækjunum sjálfur, milliliðalaust.