151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

störf þingsins.

[14:02]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Við fengum í gær fregnir af því að Ísland væri eitt örfárra Evrópuríkja sem enn hefðu ekki skilað uppfærðum markmiðum í loftslagsmálum til Sameinuðu þjóðanna. Ég spyr, virðulegur forseti: Hvers konar metnaðarleysi er það? Hversu slöpp getur ríkisstjórnin verið í þessum málum? Í Parísarsamkomulaginu frá 2015 er skýrt kveðið á um að aðildarríki eigi að uppfæra landsmarkmið sín í loftslagsmálum á fimm ára fresti, það er ekki flókið. Þarna velur ríkisstjórnin einfaldlega að skila auðu. Hún er ekki að brjóta alþjóðasamkomulag, við vitum það, en þetta er til marks um sorglegt áhugaleysi og mikla bresti í sjálfri stjórnsýslunni.

Ef okkur á að takast að snúa við þeirri hræðilegu þróun sem blasir við mannkyninu verðum við einfaldlega að sýna metnað og vera virkir þátttakendur, ekki þiggjendur. Og hver eru svörin við þessu klúðri hjá ríkisstjórninni? Jú, við erum að vinna í þessu, við erum að skoða þetta, eins og í svo mörg ár. Þetta eru klassísk, vond, slöpp svör. Forystufólk VG þarf að horfast í augu við það að ekki er mikil samstaða í ríkisstjórninni um umhverfis- og loftslagsmál, eins sárt og það er. Á málaflokknum er lítill áhugi á meðal óbreyttra stjórnarþingmanna og skortur á pólitískum vilja. Við vitum að utanríkisráðherra fer með samningsumboðið. Umhverfisráðherra fer með framkvæmdina sjálfa. Þessi skortur á samvinnu, skortur á metnaði og skortur á sýn er á þeirra ábyrgð og leiðir til þess að við skilum auðu í þessum mikilvæga málaflokki sem snertir framtíð okkar allra. Það að skila auðu er a.m.k. ekki góður vitnisburður og sýnir að hér er eitthvað verulega mikið að.

Það er ekki nóg, virðulegi forseti, að skipa hér endalaust nefndir, ráð, skrifa skýrslur eða setja okkur á biðlista. Það er bara ekki nóg. Ríkisstjórnin hefur haft allt kjörtímabilið til að sýna á spilin. (Forseti hringir.) Við Íslendingar eigum að vera forystuþjóð í baráttu heimsbyggðarinnar við loftslagsvána. (Forseti hringir.) Við eigum ekki að vera dragbítur á okkur sjálf eins og ríkisstjórnin er núna.