151. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2021.

tekjuskattur.

399. mál
[18:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki annað að segja en að ég þakka fyrir ágætar undirtektir við málið og þetta eru ágætisábendingar sömuleiðis sem nefndin getur unnið með og unnið úr. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig til tekst. Það er ekkert sjálfgefið að okkur takist ætlunarverkið, þ.e. að örva. Það má líka halda því fram að það geti verið erfitt að mæla það eftir á hversu mikið af þeirri fjárfestingu sem á sér stað í kjölfar lagasetningar eins og þessarar á rætur sínar að rekja beint til lagasetningarinnar og hvað var áður áformað. Þetta er ekki gott að mæla nákvæmlega en það sem við vitum er að við höfum þó a.m.k. gert það sem við gátum. Við lögðum til tólin, verkfærin eða hérna í þessu tilviki kannski sérstaklega hvatana, ívilnunina sem skipti sköpum fyrir suma, ef ekki alla, og við vildum að væri til staðar ef það kynni að hafa áhrif á tegund fjárfestinga og fjárfestingarvilja. Ég ætla að taka það aftur fram að það er mjög alvarlegt mál hversu mjög hefur dregið úr fjárfestingu atvinnulífsins og það verður að breytast. Það er ein af forsendum þess að við náum okkur aftur upp úr efnahagslægðinni og um leið forsenda þess að innan fárra ára verðum við samkeppnishæf sem þjóð við aðra þá sem eru að keppa um markaði, t.d. fyrir utanríkisviðskipti og þjónustu við okkur Íslendinga. Við þurfum að halda í okkar vinnumarkað, þ.e. við þurfum að halda í allt það vel menntaða fólk sem er í landinu. Fjárfesting í framtíðinni er ein forsenda þess að hér geti verið lífvænleg skilyrði til lengri tíma og ákjósanlegt að búa þar sem störf verða til í geirum sem eiga erindi við framtíðina.