151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:52]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. Mér er fullljóst að það er ekki verið að leggja niður Neytendastofu með þessu frumvarpi, þess vegna spurði ég hvers vegna það væri ekki gert um leið. Ég get heldur ekki tekið undir það sem segir um Neytendasamtökin á Íslandi, þó að þau séu alls góðs makleg, ríkisvaldið getur ekki útvistað neytendavernd til frjálsra félagasamtaka úti í bæ sem búa við frekar kröpp kjör þannig lagað séð. Ríkisvaldið verður að setja leikreglur og hafa forystu og sýna neytendum í landinu virðingu með því að hefja þessi mál upp úr því að vera í fyrsta lagi í stagbættri stofnun sem er með fáein verkefni vítt um völl. Svo ég nefni bara, með leyfi forseta, þá segir um markaðseftirlit á sviði neytendaréttar á bls. 6 í frumvarpinu að stofnunin hafi eftirlit með í fyrsta lagi lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Með mikilli virðingu sem ég hef fyrir íslenska fánanum og ríkisskjaldarmerkinu þá spyr ég mig hvað eftirlit með því er að gera inn í Neytendastofu. Af hverju er það ekki einhvers staðar á vegum dómsmálaráðuneytisins? Þetta er svo óskiljanlegt, herra forseti. Ef þetta er gert með einhverri ráðgjöf þá vona ég að hún hafi ekki verið dýr í peningum talið því að hún hefur ekki verið góð, það blasir við.

Ég segi aftur: Hvers vegna gengur ráðherrann og ríkisstjórnin ekki bara hreint til verks, leggur þessa stofnun niður og hefur neytendavernd og neytendamál til vegs og virðingar með því að koma þeim fyrir til framtíðar annars staðar, t.d. til hliðar við önnur verkefni í burðugri stofnun sem ræður við verkefnið? Hvers vegna ekki?