151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

Neytendastofa o.fl.

344. mál
[15:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þessa umræðu en sá illi grunur sem ég bar í brjósti varðandi þetta þingmál kristallaðist í orðaskiptum mínum við hæstv. ráðherra nú rétt áðan. Ég geri mér grein fyrir því að réttindi neytenda eru mjög víða og snerta allt okkar daglega líf, þ.e. ef við kaupum vörur eða þjónustu. Því finnst mér það enn óskiljanlegra að verið sé að grauta neytendaréttinum út um allar koppagrundir, í Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Póst- og fjarskiptastofnun o.s.frv., eftir eðli viðskiptanna á hverjum tíma. Kannski væri rétt að leggja fram formlega fyrirspurn um 100 dæmi um réttindi neytenda á hinum ýmsu sviðum og spyrja að því hvar þau tilteknu réttindi, hver sem þau eru, séu varin og hvort þau séu öll varin með því að vera með neytendamálin holt og bolt út um allt í stjórnsýslunni. Og talandi um að fá yfirsýn, ég get ekki séð að menn fái yfirsýn með því að henda þessum verkefnum út um allt.

Ég segi aftur: Ég hef haft þá skoðun mjög lengi að leggja eigi Neytendastofu niður. Þegar svo var komið að manni virtist að uppistaðan í starfsemi stofnunarinnar væri að skoða verðmerkingar í búðargluggum og hafa eftirlit með vogum, sem nú eru rafrænar og tölvustýrðar, fór maður að velta fyrir sér hvert verksviðið væri í alvöru og hver væri tilgangurinn með þessari stofnun sem kostar drjúgt fé. Ég man ekki töluna núna, en mig minnir að ég hafi einhvern tíma séð töluna 270 milljónir á ári sem þessi stofnun kostar. Á sama tíma bárust fréttir af því að stofnunin væri að sekta kaupmenn í Kringlunni fyrir 50.000 kall á mann, fyrir að merkja ekki skópör í útstillingargluggum. Þetta voru sem sagt verkefni stofnunarinnar eins og þau blöstu við almenningi.

Ég segi aftur, herra forseti: Hvers vegna hefja menn nú ekki, þ.e. ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra, verkefni á sviði neytendaréttar og neytendaverndar á hærri stall en raun ber vitni? Fyrst menn voru að leggja í það verkefni einu sinni enn að höggva verkefni af þessari vesalings stofnun, og gera hana enn aumari og gera hana enn síður til þess fallna að geta staðið undir einhverri alvörustarfsemi, hvers vegna stigu menn þá ekki skrefið til fulls, eins og ég sagði áðan, og lögðu hana niður og færðu verkefni hennar inn í burðuga stofnun sem hliðarverkefni í stað þess að halda lífi í þessari stofnun?

Með mikilli virðingu fyrir Neytendasamtökunum, þá eru þau frjáls félagasamtök og þó að þau séu alls góðs makleg og hafi sem betur fer verið í mikilli sókn undanfarið geta menn ekki útvistað til þeirra ábyrgð á því hvernig neytendavernd og neytendamálum á að vera fyrir komið í landinu. Ég verð að benda á fyrirmyndir í Danmörku þar sem stjórnvöld taka höndum saman við burðuga aðila í frjálsum félagasamtökum og mynda eins konar heild eða vettvang sem neytendur eiga að greiða leið að. Það eru enda ljósár milli neytendaréttar hér og í Danmörku, svo að ég nefni bara eitt land. Ég skil ekki enn metnaðarleysið fyrst menn ætluðu að leggja upp í þessa vegferð að gera þetta í svona mörgum skrefum og svona mörgum bútum, ég bara næ ekki upp í það.

Ég vona að sú nefnd sem tekur við þessu frumvarpi, ætli það verði ekki efnahags- og viðskiptanefnd, taki á sig rögg og reyni að fullvinna þetta verkefni fyrir ráðherrann og ríkisstjórnina fyrst að þeim tekst ekki, herra forseti, að vinna þetta almennilega. Ég hafði vissar vonir um, þegar tilkynnt var um þetta frumvarp, að nú væri verið að gera eitthvað sem munaði um. Nú væri verið að stíga fastar til jarðar og þetta væri byrjunin á einhverju nýju, þetta væri nýtt upphaf, í því efni að styrkja stöðu neytenda í landinu og neytendavernd. En nei, herra forseti, þá kemur þetta frumvarp sem er svo hróplega metnaðarlaust að það veldur gríðarlegum vonbrigðum.

Að tryggja samlegð, sagði ráðherrann, við erum algjörlega sammála þar. Sparnaður í ríkisrekstri er eitt af því sem Miðflokkurinn berst hart fyrir og að draga saman í opinberum rekstri eftir því sem hægt er. Þess vegna legg ég svo mikla áherslu á það, herra forseti, að stofnanir sem hafa ekki traustan tilvistargrundvöll og eru óburðugar til að sinna verkefnum sem þó eru merkileg séu betur komnar sem deild innan stærri skipulagsheildar. Um leið og peningar sparast og saman er dregið er hægt að sinna nauðsynlegum verkefnum sem eru eftir með burðugri hætti og með hætti sem einhver sómi er að.