151. löggjafarþing — 46. fundur,  20. jan. 2021.

jarðalög.

375. mál
[16:38]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir andsvarið. Það er gott að heyra að hæstv. ráðherra er meðvitaður um stöðuna. Það er nauðsynlegt að gera þetta. Ég get tekið undir það með hæstv. ráðherra að það er mjög mikilvægt að við höfum góða yfirsýn yfir ræktanlegt land, í hvaða tilgangi svo sem það er ræktað. Það er samt sem áður greinilega ekki enn búið að ákveða þetta og ég fagna því að hæstv. ráðherra segi að það verði ákveðið í samráði við sveitarfélögin. En við verðum að hafa í huga hér, og í öllum málum þar sem er samtal ríkis og sveitarfélaga, að það gengur auðvitað ekki, herra forseti, að ríkisvaldið sé ítrekað að bæta við verkefnum og skyldum á sveitarfélögin án þess að fjármagn fylgi með frá ríkinu til að sinna þeim. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir það vel sem fyrrverandi bæjarstjóri að tekjustofnar sveitarfélaganna eru ekki jafn sveigjanlegir og ríkisins og því er eðlilegt að það fylgi með fjármagn þegar verkefni eru sett á herðar sveitarfélaganna.

Mig langar því að spyrja hæstv. ráðherra í síðara andsvari hvort hann ætli að beita sér fyrir því, hvort það komi til greina í hans huga, að lögin verði skýrari í þeim efnum þannig að þau tryggi aukið fjármagn ef niðurstaðan verður að setja þessa skyldu á herðar sveitarfélaganna þannig að tryggt sé að öll sveitarfélögin í landinu hafi tök á og tækifæri til að vinna þessa vinnu jafn vel og mikilvægt er að gert verði.