151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum .

368. mál
[13:57]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra framsögu um frumvarp til laga um vernd, velferð og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Það er í sjálfu sér risastórt mál þegar fer fram heildarendurskoðun á lögum sem marka rammann um sjálfbærar nytjar og vernd villtra dýra á Íslandi. Fyrst langar mig að beina þeirri spurningu til ráðherra hvort lagaskilin varðandi stjórnunar- og verndaráætlanirnar og fyrirkomulag veiða séu algerlega tryggð, eins og hann fór yfir í síðasta hluta ræðu sinnar. Ég held að þetta sé eitt af því sem er mjög mikilvægt að verði mjög skýrt í meðförum nefndarinnar.

Þá langaði mig að spyrja aðeins út í friðlýsingar á æðarvarpi. Það er í sjálfu sér ekki verið að gera breytingu í þessum tillögum, en liggja fyrir upplýsingar um að öll friðlýst æðarvörp séu nytjuð eða að öll nytjuð æðarvörp séu friðlýst — og skiptir það máli?