151. löggjafarþing — 47. fundur,  21. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[18:31]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég biðst afsökunar ef hv. þingmaður hefur tekið það til sín þegar ég notaði orðin bann og verðtryggingarhatur. Ég var bara almennt að vísa til umræðunnar og eins og ég sagði kom hæstv. ráðherra inn á það að krafan um bann við verðtryggingu hefði verið hávær og mikil, sérstaklega frá launþegahreyfingunni. Hv. þingmaður spyr: Af hverju getum við ekki haft hlutina eins og víðast hvar annars staðar í löndum sem við berum okkur saman við? Ég trúi því að við getum það alveg. Í raun er mín sýn sú að mér finnst að ríki eigi ekki að vera með afskipti af fasteignaviðskiptum og þar af leiðandi fasteignalánum. Við erum búin að reyna það með Íbúðalánasjóði. Það hefur vægast sagt ekki tekist neitt sérstaklega vel, enda sitjum við uppi með mikið tjón af því. Hluti af húsnæðismarkaðnum er aftur á móti þess eðlis að við viljum hjálpa fólki sem er í ákveðinni stöðu og það er kerfi sem við höfum nú þegar komið á. En almennt er mín sýn sú að við þurfum hvorki að banna né leyfa, heldur leyfa þeim aðilum sem eru á markaði að bjóða upp á þá kosti sem þeir telja besta og treysta svo einstaklingum til að taka ákvarðanir sem henta þeim. Ég er bara ekki alveg þar stödd að þetta sé svona ofboðslega flókið og eitrað fyrirbrigði, verðtryggingin og það að taka verðtryggð lán. Og þó að þessi 40 ára verðtryggðu húsnæðislán séu alls ekki að öllu leyti jákvæð, og við höfum séð ýmsa ókosti við þau, þá þori ég að fullyrða að þau hafa einmitt hjálpað ungu fólki til að koma sér þaki yfir höfuðið sem ella hefði ekki átt þess kost á þeim tímapunkti, það hefði þurft að bíða lengur á leigumarkaði, ströggla enn þá meira þegar það var að stíga sín fyrstu skref á íbúðamarkaði. Þau eru því ekki bara neikvæð þó að ókostirnir hafi líka komið í ljós í þessu kerfi.