151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

öflun og dreifing bóluefnis, munnleg skýrsla heilbrigðisráðherra. - Ein umræða.

[15:47]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er hárrétt sem fram kemur í máli þingmannsins að þarna er um að ræða hópa sem oftar en ekki ráða ekki næturstað sínum og eru þess vegna í þvingaðri stöðu, ef svo má segja. Ég tel athugasemdir og vangaveltur þingmannsins eiga fullan rétt á sér. Vandinn og viðfangsefnið er þó alltaf það að við getum alltaf rökstutt það að færa einhvern upp, en um leið verðum við að rökstyðja það að færa einhvern annan niður. Það er það sem sóttvarnalæknir hefur ítrekað bent á, að í hvert skipti sem við tökum ákvörðun um að einhverjir fari framar í röðina þá erum við að taka ákvörðun um að einhverjir aðrir fara aftar í hana. Mér var hins vegar ekki ljóst að þessi umræða hefði átt sér stað sérstaklega í hv. velferðarnefnd og finnst full ástæða til að taka hana upp og mun fylgja henni eftir.