151. löggjafarþing — 48. fundur,  26. jan. 2021.

vextir og verðtrygging.

441. mál
[17:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Það frumvarp sem við ræðum hér felur í sér breytingu á lögum um vexti og verðtryggingu sem fela í sér að takmarkanir verði settar á það hverjir megi taka svokölluð Íslandslán, sem eru verðtryggð jafngreiðslulán til 40 ára. Verði frumvarpið að lögum mun verða bannað að taka verðtryggt húsnæðislán til lengri tíma en 25 ára en það eru þó nokkrar undantekningar frá því banni. Þannig má fólk undir 35 ára aldri áfram taka lán til allt að 35 ára og lántaki á aldrinum 35–40 ára má taka lán til allt að 30 ára. Þeir einstaklingar sem eru með mánaðartekjur undir 350.000 kr. eða hjón eða sambýlisfólk sem er með mánaðartekjur undir 600.000 kr. mega áfram taka 40 ára lán. Enn fremur munu takmarkanir á veitingu nýrra verðtryggðra jafngreiðslulána ekki gilda í tengslum við yfirtöku á eldri lánum heldur einungis við veitingu nýrra lána. Ekki eru heldur settar skorður við veitingu verðtryggðra húsnæðislána með jöfnum afborgunum. Því stendur til að undanskilja þá hópa sem líklegastir eru til að taka verðtryggð lán til lengri tíma; ungt og tekjulágt fólk sem sækist eftir lágum mánaðarlegum afborgunum. 25 ára bannið á ekki að gilda um það fólk. Frumvarpið felur líka í sér að bannað verður að lána verðtryggt til styttri tíma en tíu ára.

Herra forseti. Ekki er hægt að segja að ríkisstjórnin hafi haft sérstakt frumkvæði að þessu máli heldur er hér á ferðinni mál sem verkalýðshreyfingin gerði kröfu um í lífskjarasamningunum. Í þeim skuldbundu stjórnvöld sig á endanum til að banna 40 ára verðtryggð lán. Reyndar áttu stjórnvöld, samkvæmt lífskjarasamningunum, að skoða það að banna alfarið verðtryggð lán fyrir lok árs 2020. Ekki er að sjá að það hafi verið skoðað þó að fullt tilefni sé til en þó verð ég að segja að ég bind töluverðar vonir við það sem kom fram í málflutningi hv. þm. Willums Þórs Þórssonar, formanns fjárlaganefndar, hér áðan, að hann væri þeirrar skoðunar að stíga ætti þetta skref lengra og fara alla leið. Vonandi sjá stjórnvöld að sér eftir þá vinnu sem fram undan er í nefndinni og taka myndarlega á þessu því verðtryggingin hefur valdið heimilum og fyrirtækjum í landinu ómældum erfiðleikum í gegnum árin. Almenningur hefur árum saman verið í fjötrum verðtryggingar og hárra vaxta af húsnæðislánum og vextir eru almennt mun hærri hér en í nágrannalöndum okkar. Ekki hefur þurft að fara lengra en til Færeyja til þess að fá mannsæmandi húsnæðisvexti. Vextir hafa þó verið óvenjulágir hér undanfarna mánuði en hins vegar ríkir óvissa um hvort svo verði áfram. Teikn á lofti um hækkandi verðbólgu eru ekki góðar fréttir í þeim efnum.

Verðtryggingin var sett á fyrir u.þ.b. 40 árum og þá voru efnahagsaðstæður á Íslandi allt aðrar en þær eru í dag. Ástæðan fyrir því að verðtrygging var sett á á sínum tíma var sú að verðbólga var mikil og ástandið í efnahagsmálum slæmt, verðbólga var um 60%, eins og ég sagði fyrr í andsvari, og óstöðugleiki í efnahagsmálum var mikill. Síðastliðna 12 mánuði hefur vísitala neysluverðs hér á landi hækkað upp í 4,3% og vísitala neysluverðs án húsnæðis í 4,7%. Verðbólga hefur ekki verið jafn mikil hér á landi síðan í ágúst 2013 og að sjálfsögðu er þetta áhyggjuefni. Hér hefur þó ríkt stöðugleiki í efnahagslífinu, sem er jákvætt. Allar aðstæður í dag segja okkur að verðtryggingin á engan rétt á sér, ef við berum saman við þann tíma þegar hún var sett á. Engu að síður búum við enn við verðtryggingu.

Í þessum ræðustól hefur margsinnis verið rætt um mikilvægi þess að minnka vægi verðtryggingarinnar. Stjórnmálaflokkar lofa því reglulega, og þá aðallega og einkum í aðdraganda kosninga, að afnema verðtryggingu, draga úr vægi hennar en óskaplega lítið hefur gerst í þeim efnum og er það miður. Nú eru vextir á Íslandi í sögulegu samhengi mjög lágir. Þingheimur verður að sameinast um að svo verði til framtíðar og verðtryggingin hverfi úr íslensku efnahagslífi svo að ungt fólk geti eignast húsnæði án þess að vera í skuldaklafa áratugum saman eftir að það kaupir sína fyrstu íbúð.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, herra forseti, að það skorti í raun og veru bara svolitla djörfung og skörungsskap meðal stjórnmálamanna til að afnema verðtrygginguna. Ég held að stjórnmálamenn hafi verið ragir við að stíga það skref. Nú eru aðstæður mjög hagfelldar og því ætti að vera auðvelt fyrir þá að stíga þetta skref. En þeir eru því miður margir hverjir allt of litaðir af ráðgjöf embættismanna sem horfa á þetta í sögulegu samhengi og vantar kannski djörfung til að stíga þetta skref. Þegar aðstæðurnar eru góðar eins og núna á ekkert að vera því til fyrirstöðu. Það frumvarp sem hér er skiptir að sjálfsögðu máli og ég styð það. Það gengur hins vegar ekki nógu langt að mínum dómi og þar er ég sammála hv. þm. Willum Þór Þórssyni.

Ég nefndi það einnig áðan að árið 2020 væri mjög merkilegt fyrir margar sakir og það mun seint hverfa okkur úr minni. En þetta ár var líka árið sem íslensk heimili flúðu verðtrygginguna unnvörpum og umfang óverðtryggðra nýrra húsnæðislána sem bankarnir veittu heimilum landsins, umfram upp- og umframgreiðslur, var rúmlega 363 milljarðar kr. Hjá lífeyrissjóðum landsins, hinum stóra lánveitandanum á húsnæðismarkaði, varð líka gríðarlegur samdráttur í veitingu nýrra verðtryggðra lána. Ástæðan fyrir þessari hröðu breytingu er að sjálfsögðu stórbætt óverðtryggð lánakjör. Eftir að vaxtalækkunarferli Seðlabankans hófst í maí 2019 hafa stýrivextir lækkað úr 4,5% í 0,75%. Fyrir vikið er nú hægt að taka óverðtryggð húsnæðislán á rúmlega 3% vöxtum. Þetta er náttúrlega ótrúleg breyting frá því þegar Íslendingar þurftu að sætta sig við mun hærri vexti og verðtryggingu. Kannski þurftum við bara að fá nýjan seðlabankastjóra, hver veit?

Herra forseti. Í þessu sambandi er nauðsynlegt að ræða eitt mál sem ég kom aðeins inn á í andsvari, en það er ofmat á vísitölu neysluverðs sem hv. þm. Ólafur Ísleifsson hefur komið ítarlega inn á í fyrri ræðum sínum í þinginu og hv. þm. Willum Þór Þórsson kom einnig inn á það áðan í sinni ræðu. Þetta hefur borið á góma hér í þingsal og skiptir miklu máli þegar við ræðum um verðtrygginguna. Það er almennt viðurkennt að vísitala neysluverðs ofmetur almennar verðlagshækkanir. Það ofmat getur hins vegar kostað íbúðareigendur, og þá sem eru með verðtryggð lán, verulegar fjárhæðir. Talið er að það geti verið á bilinu 5–25 milljarðar kr., miðað við að verðtryggðar skuldir heimilanna séu u.þ.b. 1.700 milljarðar eða svo. Þessa skekkju, þetta ofmat, þurfa lántakendur, heimilin í landinu, að borga. Hér er einfaldlega verið að auka skuldir heimilanna með vafasömum hætti.

Hvað réttlætir það að heimilin í landinu, almenningur, lántakendur, þurfi að greiða fyrir skekkju í mælingum? Þetta mál hefur fengið allt of litla athygli og í raun ætti að vera sérstök umræða í þinginu um þetta mál og leiðir til að koma í veg fyrir að heimilin og lántakendur þurfi að greiða þetta. Það er ekkert sanngjarnt í því. Hvers vegna er ekki tekið á þessari skekkju af hálfu lánveitenda bankanna og Íbúðalánasjóðs? Það eru einhverjir hagsmunir þarna á bak við sem einhverjir vilja verja og aðrir ekki hrófla við. Hér er um hreina og klára eignatilfærslu að ræða og sumir myndu jafnvel ganga svo langt að segja að þetta væri tekið ófrjálsri hendi, að láta lántakendur borga fyrir skekkju í mælingum. Flestar rannsóknir sem gerðar hafa verið á heildarskekkju í vísitölumælingum benda til þess að hún sé jákvæð og vísitölumælingar ofmeti því verðbólgu. Aldrei eru þessar skekkjur neikvæðar, hafa menn tekið eftir því, þannig að þær vanmeti verðbólguna og lántakendur borgi minna? Það er aldrei svo. Það er kannski svolítið einkennileg tilviljun að svo skuli ekki vera. Þetta er alvarlegt mál fyrir almenning á Íslandi sem býr í þeim fjötrum sem verðtryggingin er og hér hefur verið lýst.

Ég tel brýnt að fara nánar í rannsókn á þessu máli, herra forseti, vegna þess að það varðar mikla hagsmuni og kemur flestum við. Það er mikilvægt að gerð verði ítarleg úttekt á skekkju í vísitölu neysluverðs á Íslandi og fengið mat á þeim heildarupphæðum sem um er að ræða. Slík rannsókn myndi tryggja nákvæmari mælingar vísitölunnar. Það er heimilunum mjög mikilvægt. Það er mikilvægt að vel verði staðið að slíkri rannsókn á heildarskekkju í vísitölumælingum svo að niðurstöðurnar verði áreiðanlegar og hlutlausar þannig að þær verði almennt viðurkenndar. Þetta er mál sem hefur ekki farið hátt, hálfpartinn verið falið, ef svo má að orði komast, en getur haft gríðarleg áhrif.

Það má nefna það hér að öldungadeild Bandaríkjaþings hefur látið rannsaka hlutverk vísitölu neysluverðs í velferðarkerfi ríkisins til að veita ábendingar um það sem betur mætti fara. Niðurstaðan varð sú, sem er athyglisvert, að skekkja í vísitölumælingum væri líklega meiri nú en áður vegna fjölda nýjunga í efnahagslífinu, örari tækniþróunar og aukinnar eftirspurnar eftir þjónustu og gæðum o.s.frv., sem allt gerir mælingar á vísitölunni flóknari. Nýjungarnar voru áður teknar inn í vísitöluna með mun meiri töf, ef svo má að orði komast, en gengur og gerist í dag. Oft voru vörur komnar í almenna notkun á meiri hluta heimila áður en þær urðu að grunni í vísitölu neysluverðs. Það er mikill veikleiki vísitölunnar að hún tekur ekkert tillit til þeirrar staðreyndar að neytendur hafa tilhneigingu til þess að versla minna af vörum sem hafa hækkað hlutfallslega í verði og meira af vörum sem eru orðnar hlutfallslega ódýrari.

Flestar rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að heildarskekkja í vísitölumælingum bendi til þess að hún sé jákvæð og vísitölurnar ofmeti verðbólguna, eins og ég nefndi áðan. Með tímanum breytist neyslumynstur heimilanna. Grunnurinn sem mælir vísitöluna hættir að endurspegla neyslusamsetninguna og vogirnar sem mæla þennan grunn þarf því reglulega að aðlaga og breyta vegna neyslusamsetningar. Við fáum afskaplega litlar fréttir af því hversu reglulega þetta er uppfært hér á landi. Það eru gerðar svokallaðar úrtakskannanir á vöruflokkum. Verðupplýsingum er safnað reglulega en við vitum lítið um það hvenær vogirnar eru metnar, þ.e. mælikvarðinn sem mælir vísitöluna, sem síðan verður til þess að hækka verðtryggðu lánin. Þegar við kaupum t.d. eldsneyti á bensínstöð er þar fullkominn tölvubúnaður sem mælir magnið sem við kaupum og dælum á bílinn og þessi búnaður er reglulega yfirfarinn af Löggildingarstofu. Við treystum því að við fáum það magn sem við borgum fyrir. Olíufélögin vilja að sjálfsögðu ekki láta okkur fá meira magn en við borgum fyrir. Það gerist aldrei. Það er vel passað upp á það vegna þess að það er tækni sem mælir þetta. En þegar búnaðurinn sem mælir vísitöluna mælir hana of háa, sem rannsóknir hafa sýnt að gerist iðulega, þarf almenningur að borga í formi hækkunar á lánum. Í þessu, herra forseti, felst hróplegt óréttlæti. Það er bara svo einfalt.

Fasteignalán eru tryggustu lán sem hægt er að veita. Veð í fasteign eru almennt bestu veðin. Þess vegna ættu viðmið um áhættu og ávöxtun að leiða til þess að slík lán beri lægri vexti en almennt gerist í ljósi hinnar miklu tryggingar sem lánveitandi nýtur.

Þegar við horfum á þá skekkju sem ég nefndi, herra forseti, sem getur varðað verulegar upphæðir, er hrópleg ósanngirni í því að lántakar skuli þurfa að bera hana. Þetta er samt klassískt dæmi um þann mikla aðstöðumun sem ríkir á Íslandi milli lántaka annars vegar og lánveitanda hins vegar. Við verðum, herra forseti, að sameinast um það í þessum sal að breyta þessu.