151. löggjafarþing — 49. fundur,  27. jan. 2021.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Herra forseti. Ég er hugsi eftir svör forsætisráðherra í gær við fyrirspurn hv. þm. Guðmundar Inga Kristinssonar um rétt námsfólks til atvinnuleysisbóta. Ráðherrann fór í svörum sínum yfir almennar aðgerðir í þágu fólksins í landinu en fór eins og köttur í kringum heitan graut fram hjá því að ræða þau vandamál sem blasa sérstaklega við stúdentum. Meginkrafa stúdenta til margra ára snýr að grunnframfærslu námslána. Stóra breytingin sem þarf að eiga sér stað á námslánakerfinu er einfaldlega að fólk geti lifað af lánunum og það þurfi ekki að vinna með námi. En hvernig hefur það gengið? 72% stúdenta vinna með námi til að framfleyta sér. Fjórðungur stúdenta telur að vinnan hafi áhrif á frammistöðu þeirra í námi. Ástæðan er einföld. Grunnframfærslan er allt of lág og hún hefur verið allt of lág í allt of mörg ár. Reyndar beindi meiri hluti þingsins því til sjóðstjórnar fyrir ári, þegar við samþykktum ný lög um námslán, að fólk yrði að geta lifað af framfærslunni og í gær sagði ráðherra að að sjálfsögðu ætti að reyna að tryggja námsmönnum framfærslu. En hvernig gengur það? Grunnframfærslan er í dag óbreytt frá því sem hún var fyrir ári, áður en við breyttum lánasjóðskerfinu, 189.500 kr. á mánuði í níu mánuði á ári. Á þessa upphæð eiga námsmenn að treysta. Á sama tíma er þeim óheimilt að sækja sér atvinnuleysisbætur því að þrátt fyrir að af launum vinnandi stúdenta renni atvinnuleysistryggingagjald í sjóð, alveg eins og af launum annars vinnandi fólks, á þessi stóri hópur ekki rétt á því að njóta trygginga. Á þetta hefur talsfólk stúdenta ítrekað bent og síðustu níu mánuðina (Forseti hringir.) hefur stúdentahreyfingin sent hvert neyðarkallið á fætur öðru til stjórnvalda. Skeytingarleysi ríkisstjórnarinnar varðandi fjárhagslegt öryggi stúdenta er ólíðandi. (Forseti hringir.) Stúdentar eiga betra skilið.