151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

staða stóriðjunnar.

[11:24]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um stöðu stóriðjunnar á Íslandi. Stóriðja er mikilvægur hluti af atvinnulífinu á Íslandi, eitt af eggjunum í körfunni. Stóriðjan er á sumum svæðum kjölfesta í atvinnulífi og þar með grunnur fjölbreyttrar atvinnustarfsemi lítilla og stórra fyrirtækja og samfélaga. Við tölum gjarnan um að við þurfum fleiri egg í körfuna til að styrkja íslenskt atvinnulíf og á sama hátt er mikilvægt að ekkert egg í körfunni brotni.

Sjónarhorn framsögumanns á þessa umræðu er á samkeppnisstöðu stóriðjunnar og að mínu áliti skipta þar margir þættir máli: Það eru hráefnin, sem við getum litið á sem orku og súrál, og því er eðlilegt að umræðan hér beinist að orkunni. Markaðsaðstæður á hverjum tíma skipta máli. Svo eru það starfsmannamálin, bæði í innlendu og alþjóðlegu samhengi. Það skiptir máli að starfsaðstæður laði að sér fólk og að aðgangur að símenntun og allur aðbúnaður sé þannig að svo geti orðið. Síðan eru það umhverfismálin. Forskot íslenskrar stóriðju hefur falist í umhverfisþættinum og til framtíðar munu umhverfismál eflaust verða enn ríkari þáttur í að tryggja samkeppnisstöðu íslenskrar stóriðju. Að því mun ég koma betur í síðari ræðu hér á eftir. En Covid hefur skapað þessari atvinnugrein áskoranir eins og öðrum í kjölfar samdráttar á öllum sviðum á heimsvísu og uppsöfnunar birgða, en einnig vegna vaxandi samkeppni í heimshlutum þar sem kröfur til umhverfisþátta og aðbúnaðar starfsfólks eru minni og ríkisstyrkir óljósir. Það eru samt sem áður vísbendingar um að bjartari tímar séu nú fram undan, m.a. hjá kísilverinu á Bakka og með hækkandi verði í álframleiðslu.