151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[12:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. 50 manna fyrirtæki — ég hef unnið hjá fyrirtæki þar sem voru rétt tæplega 50 manns og það er í sjálfu sér ekki stórt fyrirtæki. Það er kannski stórt ef tekið er meðaltal úr einhverjum hópum fyrirtækja, en þetta er ekki stórt fyrirtæki. Og jafnvel þótt 99 manns ynnu hjá fyrirtækinu væri það ekkert rosalega stórt fyrirtæki, ég tala nú ekki um ef það er í samkeppni við erlenda aðila sem eru með stærri fyrirtæki á sama markaði o.s.frv. En menn geta togað þetta fram og til baka.

Það sem mig langar að velta upp — ég ætla ekki að spyrja þingmanninn því að hann getur ekki komið upp aftur — af því að hv. þingmaður sagði að ekki hefði verið bent á neitt annað, er spurningin sem ég bar upp áðan: Af hverju prufum við ekki að segja við fyrirtæki að ef þau uppfylli lögin inna tveggja mánaða, eins árs, sex mánaða, eitthvað, þá muni ríkisvaldið greiða kostnaðinn við stjórn fyrirtækisins í þrjú ár? Búa til jákvæða hvata, þannig að fyrirtæki sjái hagi sinn í því að gera það. Ég er samt ekkert viss um að öll fyrirtæki gætu gert þetta eða vildu gera það bara út af því hvernig þau fyrirtæki eru byggð upp, hvernig eignarhaldið er o.s.frv. Það sem ég er að segja er að það þurfa ekki alltaf að vera þessar refsingar, ég held ekki. Ég held að hægt sé að fara aðrar leiðir. Hv. þingmenn Pírata hafa nú talað fyrir því að það eigi að hætta að refsa fyrir ákveðna hluti og mér sýnist að það stefni í að þeir nái því í gegn þótt það verði kannski undir formerkjum annarra. En það er dæmi um það að við eigum ekki alltaf að horfa bara á refsinguna. Eins og ég nefndi eru kannski aðrar leiðir til að ná þessum markmiðum.