151. löggjafarþing — 50. fundur,  28. jan. 2021.

samvinnufélög o.fl.

56. mál
[13:06]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka kærlega fyrir andsvarið. Nú gætum við byrjað umræðuna, þetta er það áhugavert. Það er einmitt þetta, að það séu fleiri þættir en kyn sem ákvarði hvar fólk vill vera. Við getum líka sagt að það séu fleiri þættir sem ákveði hvort kynið á að vera hvar — nú er ég er komin í einhverja hugsun sem er kannski erfitt að ná utan um. En ég minnist þess þegar verið var að tala um konur og rafvirkjun sem dæmi. Þær hafa verið að hasla sér völl innan rafvirkjunar og þá er oft sagt í mín eyru: Ja, rafvirkjun er nefnilega þannig að hún er ekki lengur svo mikil erfiðisvinna, það er svo mikið um fínhreyfingar. Og það sé ástæðan fyrir því að konur séu komnar þar inn.

Ef við ræðum viðmót, t.d. gagnvart kynjum, þá veit ég um nokkra karla sem hafa sótt í hjúkrunarfræði hér á Íslandi. Þeir hafa ekki alltaf átt auðveldar stundir í hjúkrunarfræði. Ég vil leyfa mér að halda því fram að það sé kannski erfiðara fyrir karla að fara inn í hefðbundna kvennastétt en fyrir konur að fara í karlastéttir vegna þess að konunum er á einhvern hátt hampað umfram það ef karlar fara yfir í kvennastétt og er jafnvel litið á það þannig að þeir hljóti að vera eitthvað skrýtnir, að það sé eitthvað að þeim að vera að vinna svona störf, ég get nefnt leikskólakennara. Við vitum að það eru fleiri karlar í kennslu í framhaldsskólum og háskólum jafnvel enn þá, en þeir sjást eiginlega ekkert í leikskólum eða á neðstu stigum grunnskólans.