151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

orkuskipti í flugi á Íslandi.

330. mál
[16:27]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Af því að hv. framsögumaður er að yfirgefa salinn vil ég byrja á að þakka honum fyrir framlag hans til málsins. En ég vil stuttlega undir lok þessarar umræðu þakka félögum mínum í umhverfis- og samgöngunefnd fyrir þá samstöðu sem er um málið. Ég held að öllum sé ljóst sem hafa skoðað þetta núna að tækifærin í þessum efnum eru mikil, bæði hvað allan kostnaðarstrúktúr varðar og umhverfisleg áhrif.

Síðan er það, sem ýmsir þeir sem hafa talað á undan mér hafa komið inn á, sem eru vonandi aukin tækifæri til nýtingar flugsins. Við höfum þá sérstaklega verið að horfa á flug innan lands til að byrja með. Hér hefur verið nefndur allur sá fjöldi innlendra flugvalla og lendingarstaða sem mögulega gæti orðið tækifæri til að taka í notkun aftur, sem ekki hafa verið í notkun um hríð. Þetta eru allt saman þættir sem er mjög áhugavert að sjá með hvaða hætti er raunhæft að koma áleiðis.

Ég þakka aftur félögum mínum í umhverfis- og samgöngunefnd og hv. þm. Jóni Gunnarssyni, framsögumanni fyrir hönd nefndarinnar. Það er kannski einn sem ég vil nefna sérstaklega. Það er Matthías Sveinbjörnsson, formaður Flugmálafélags Íslands, sem gaf okkur nefndarmönnum mjög greinargóðar upplýsingar um málið og hefur verið óþreytandi við að kynna kosti rafvæðingu flugsins. Ég vil bara nota þetta tækifæri til að þakka Matthíasi Sveinbjörnssyni sérstaklega fyrir hans innlegg hvað það varðar að málið sé komið á þennan stað. En ég hlakka til að sjá með hvaða hætti málinu vindur fram og ég tel að þetta sé allt til mikilla bóta.