151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það eru í sjálfu sér áhugaverðar hugleiðingar sem hv. þingmaður var hér með um, hvað eigum við að kalla það, lagahyggju, smámunasemi eða einhverja nákvæmniáráttu í lagatextum. Ég er auðvitað fylgjandi því að lagatexti sé knappur og skýr eins og kostur er. Það má velta því fyrir sér í sambandi við lagarammann um störf Alþingis, um þingsköpin. Þá er að því að hyggja að lengi hefur það verið þannig að hluti af leikreglunum hér byggir á venjum og hefðum og í handbókinni Háttvirtur þingmaður, sem er leiðbeiningabók fyrir nýja þingmenn, er þetta ágætlega útlistað. Enn er það svo að ýmsir hlutir eru í föstum skorðum án þess að um það séu lagafyrirmæli. En hitt verður að hafa í huga að á síðastliðnum 12–14 árum höfum við séð alveg geysilega hraða endurnýjun á Alþingi. Við höfum byrjað hér kjörtímabil eftir kjörtímabil með bara býsna stóran hluta þingheims alveg nýjan. Það er mitt mat, og hef ég þó nokkra yfirsýn yfir þetta, að óskir um meiri skýrleika hafi tengst þessu og það er alveg skiljanlegt. Menn vilja gjarnan hafa sem fastast land undir fótum þegar þeir taka sín fyrstu skref hér í þingstörfunum eða nefndarstarfinu og hefur verið kallað eftir því að leikreglur væru skýrðar. Sumt af því sem hér er verið að gera er í þá áttina, t.d. að hafa eins skýrar reglur og hægt er um atvik sem geta komið upp í nefndarstarfinu og hvernig ganga skuli frá málum, bóka þau eða boða fundi nefnda o.s.frv.

Varðandi hitt sem hv. þingmaður nefndi, um 19. gr., þá tel ég hana mjög mikilvæga. Hér er Alþingi að senda framkvæmdarvaldinu skýr skilaboð um hvernig þau mál sem það leggur fyrir þingið til innleiðingar á gerðum skuli vera útbúin, og það er að gefnu tilefni. Hér hefur gætt óánægju með að stundum væri óskýrt hvort meira væri að finna í frumvarpinu en nauðsynlegt væri til innleiðingarinnar (Forseti hringir.) og hvort gengið væri lengra en lágmarksreglur kvæðu á um. Hér eru send mjög skýr fyrirmæli til framkvæmdarvaldsins um það að svona vilji Alþingi fá þessi mál útbúin.