151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:28]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir andsvarið. Ég tók það fram í minni ræðu, ég held að það hafi ekki farið á milli mála, að ég nota ekki þessi lög sem eitthvert sérstakt dæmi um þetta. Það er bara mikil aukning á þessu í lagasetningu, mjög mikil. Ég gæti fundið skýrari dæmi um þetta, nýleg, frá þessu þingi. Ég á við að þá sé mjög flæktur, mjög langur, mjög torskilinn lagatexti, settur fram augljóslega með það að markmiði að reyna að hnýta fyrir og loka fyrir allar mögulega leiðir til að lagatextinn gæti skilist á einhvern annan hátt en hann segir til um. En það verður oft til þess að skilaboðin verða óskýr.

Varðandi 19. gr., fyrst að hv. þingmaður minntist á hana sem ég tók bara sem dæmi af handahófi, algerlega af handahófi, úr þessum texta, þá eru þetta að sjálfsögðu ágæt skilaboð og þetta er ágætisgrein og þar er góður ásetningur. En það á auðvitað ekki að þurfa að setja þetta í lög. Þetta er bara hið augljósa, að EES-tilskipun sem við erum að innleiða á annaðhvort að koma hrein og klár, það sé tekið fram, og ef einhverju er bætt við á það að koma fram í frumvarpinu, með innleiðingunni. Að sjálfsögðu. Þetta er dæmi um hið augljósa. En ég get alveg fallist á það með hv. þingmanni að þetta eru skýr skilaboð og þetta er hið besta mál. En þetta á að vera augljóst og er auðvitað augljóst og á að vera öllum augljóst.