151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:30]
Horfa

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta væri verðugt viðfangsefni að fjalla um og hefur reyndar verið gert aðeins, t.d. á lagadeginum þegar undirbúningur lagasetningar var þar einu sinni meginviðfangsefnið fyrir tveim, þrem árum. Þá var mjög margt áhugavert rætt um framsetningu laga og texta þeirra.

Ég er sammála hv. þingmanni um það að á köflum gætir mikillar tilhneigingar til mikilla útlistana í lagatexta sem maður hefur efasemdir um. En við skulum þá muna á hinn bóginn að það hefur líka verið tregða, vaxandi tregða, til að samþykkja of rúmt framsal til handa framkvæmdarvaldinu að setja mál niður með reglugerð. Einhvers staðar liggur jafnvægið þarna á milli. Ég hef stundum nefnt í þessu sambandi ákvæði vatnalaganna gömlu góðu frá 1927, ef ég man rétt, þar sem er ein af fallegri setningum í íslensku lagamáli, þessi grundvallarsetning laganna sem hljóðar svo: „Vötn öll skulu renna sem að fornu hafa runnið.“ Punktur. Ekkert meira um það mál að segja. Þetta er auðvitað stórkostlegur texti og knappur og góður og því betur sem menn geta orðað meira svoleiðis. En sennilega er engin einföld og algerlega gallalaus framsetning og formúla í þessu.

Mér finnst stundum bera líka á því að menn þvæla inn í lagatexta hlutum sem eru tæknilegs eðlis og ættu betur heima í reglugerð. Ég er stundum þeirrar skoðunar að það sé öllum fyrir bestu að drekkja mönnum ekki í einhverjum flóknum tæknitextum heldur sé það frágangsatriði faglegra aðila með reglugerð. En lagaramminn þarf auðvitað að vera skýr.

Aðeins aftur að 19. gr. Ég tel að mjög mikilvægt sé, ég hef reynslu af því og man eftir umræðum um það hér og óánægju með það á köflum, þegar innleiðingarmál hafa ekki verið nógu skýrt fram sett, ekki að það sé endilega bannað að eitthvert annað sjálfstætt efnisatriði fljóti með. En það þarf þá að vera algerlega kristalskýrt ef eitthvað meira fylgir með en það sem þarf innleiðingarinnar vegna. Eins hefur þetta verið bitbein (Forseti hringir.) eftir á hvort menn hafi stundum gengið lengra en þurfti við innleiðingu einhverra gerða og svo sitja menn uppi með það sem heilagan sannleik af því að lagt var af stað þannig í byrjun og má þar nefna innleiðingu fyrsta og annars orkupakkans í því samhengi.