151. löggjafarþing — 51. fundur,  2. feb. 2021.

þingsköp Alþingis og réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

468. mál
[17:46]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef tekið eftir þessu mynstri líka með kynin, þ.e. hjá þeim sem tala mest. Ég tek bara undir allt sem hv. þingmaður sagði, hef engu að andmæla. Ég vil þó kannski bæta við að ég held að sú þörf hér á Alþingi fyrir að vera stanslaust að ræða hluti sé skyld því sem er að mínu mati svolítið djúpt í menningu okkar Íslendinga og það er að hlusta illa og sjaldan. Ég held að hægt væri að ná fram mun betri samskiptum, minna blaðri, færri endurtekningum, færri frammíköllum og þess háttar ef fólk upplifði að verið væri að hlusta á það og upplifði að það þyrfti ekki alltaf að grípa orðið um leið og það gæti og þyrfti ekki alltaf að rífa það af öðrum til að komast að.

Ég hef reynslu af því að búa í Finnlandi, þar sem þetta er eiginlega þveröfugt. Ég bjó þar í eitt ár og ég held að aldrei nokkurn tímann hafi ein einasta manneskja gripið fram í fyrir mér. Svo þegar ég kom til Íslands ætlaði ég að vera til fyrirmyndar og grípa aldrei fram í. Niðurstaðan var mjög einföld, ég komst aldrei að. Og þannig líður mér stundum þótt á annan hátt sé hérna á hinu háa Alþingi þegar kemur að ræðum, maður veit það einhvern veginn að það lítið kemst til skila og þá verður til einhver vítahringur þar sem reynt er að bæta upp fyrir það með því að blaðra meira og það er ekkert hlustað betur við það. Og þá er þetta bara eins og þetta lítur út núna.

Ég kann ekki lausn, virðulegi forseti, hef svo sem engar frekari spurningar til hv. þingmanns um þetta. En ég verð að taka undir með hv. þingmanni og vona að hægt sé að taka á — (Gripið fram í: … prúður í Finnlandi?) nei, virðulegi forseti, ég var ekki prúður í Finnlandi, ég get ekki sagt það. En að öðru leyti fagna ég umræðunni og ég vona að við komumst eitthvað áfram, líka menningarlega, ekki bara lagatæknilega eins hv. þingmaður nefndi hérna áðan.