151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

meðhöndlun sorps.

[13:10]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Ég er sammála hv. þingmanni um að það verður að draga mjög mikið úr urðun, en það er einmitt eitt af viðfangsefnum nýrrar stefnu um meðhöndlun úrgangs sem drög eru komin að í samráðsgátt stjórnvalda. Að auki eru drög að lagabreytingum sem munu einmitt leiða til þess, ef að líkum lætur, að urðun minnki til muna hér á landi. Meðal annars er stefnt að því að taka upp skyldu á flokkun, samræma flokkun alls staðar á landinu og færa þjónustuna nær íbúunum þannig að í þéttbýli verði skylda að bjóða upp á að taka á móti lífrænum úrgangi við húsvegg, úrgangi sem er með pappa og pappír og plasti. Þetta er allt saman grundvallaratriði til að ýta undir endurvinnslusamfélag á Íslandi og skiptir mjög miklu máli. Ég hef talað fyrir því að setja á urðunarskatt til þess að búa til hvata til að leiða til þess að það verði minni urðun en er í dag. Það er í þessari stefnu og ég vonast til að geti komið til framkvæmda á næstu árum.

Mig langar að segja varðandi sorpbrennslu og beina því til hv. þingmanns að sorpbrennslur eru ekki eina lausnin, en þær eru lausnin á því sem við getum ekki endurnotað, getum ekki endurunnið eða endurnýtt. Það er betra að brenna sorpi og búa til orku en að urða það. En við megum ekki byggja upp þannig kerfi að það sé eina lausnin í úrgangsmálum á Íslandi. Þá væri ekki vel fyrir okkur komið. En við þurfum að vinna að þeim lausnum líkt og öðrum.