151. löggjafarþing — 53. fundur,  4. feb. 2021.

norrænt samstarf 2020.

497. mál
[16:44]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að hefja mál mitt á að taka undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttur en hún talar um mikilvægi þess að við setjum næga fjármuni í það samstarf sem hér er undir. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt. Mig langar að nýta tækifærið til að hrósa forystu Íslandsdeildarinnar, hv. þingmönnum Silju Dögg Gunnarsdóttur og Oddnýju G. Harðardóttur, forseta og varaforseta Norðurlandaráðs á síðasta ári, fyrir að hafa haldið vel utan um starfið, utan um þingið, á þessum erfiðu tímum. Mér hefur oft orðið hugsað til þeirra — við vitum öll hvernig er að vera á fjarfundum, þar sem hugurinn leitar í ýmsar áttir og maður sér að þannig er það hjá mörgum — og hvernig þær hafa haldið utan um allt okkar góða starf því að það hefur verið býsna gott og ekki bara miðað við aðstæður heldur hefur það verið býsna gott. Punktur. Miðað við aðstæður hefur það verið með eindæmum gott. Ég vildi draga það sérstaklega fram að mér finnst þær hafa staðið sig með eindæmum vel og hafa haldið á lofti sjónarmiðum okkar sem hafa birst í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og endurspegla að mínu viti sjónarmið hv. Alþingis. Því miður fengum við ekki að njóta þess, sem er alltaf skemmtilegra, að halda stórt þing og fundi og hittast öll og hafa örlítið meiri — ég ætlaði að segja bravúr, ég veit ekki hvort forseti ávítar mig fyrir það, ég biðst þá forláts — meira umleikis á fundum.

En við upplifðum ýmislegt annað á síðasta ári. Hv. þingmenn, sem hér hafa talað á undan mér, hafa báðar komið inn á það að vissulega hafi faraldurinn tekið eitthvað frá okkur en líka fært okkur eitthvað. Ég segi fyrir mína parta að það að geta tekið þátt í fjarfundum opnaði á möguleika sem ég held að hefðu ekki verið opnir okkur að öðrum kosti. Ég sit t.d. fyrir hönd Norðurlandaráðs á þingmannaráðstefnu Eystrasaltssvæðisins, BSPC á alþjóðlegri skammstöfun. Þar er ég í vinnuhópi um loftslagsmál sem ég sæti trauðla í ef mæta þyrfti á vinnufundi, eins og hefur verið, hér og þar. Nú höldum við fjarfundi.

Ágætlega hefur verið farið yfir starfið í heild sinni þannig að mig langaði bara að koma inn á þá tvo þætti sem ég þekki best, eða kannski þrjá. Ég vil byrja á þeim mikilvægasta. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram að mikilvægasti þátturinn er afnám stjórnsýsluhindrana. Það starf sem fer fram innan Norðurlandaráðs í að afnema stjórnsýsluhindranir er í anda vilja íbúa svæðisins, það er það sem við viljum öll. Við viljum geta ferðast og flutt og búið hvar sem er innan Norðurlandanna, flutt með okkur öll okkar réttindi en um leið uppfyllt þær skyldur sem fylgja hverju landi. Þess vegna er sú vinna alveg ofboðslega mikilvæg sem unnin er innan Norðurlandaráðs.

Ég sit líka í sjálfbærninefnd Norðurlandaráðs og þar hefur maður glöggt séð hversu alþjóðleg verkefnin sem blasa við okkur varðandi loftslagsmál og umhverfismál eru; að við erum öll að taka á sömu hlutum. Það er gríðarlega mikilvægt að við höfum þennan vettvang til að vinna saman að tillögum þar um eða eiga orðastað við þingmenn ólíkra flokka frá ólíkum löndum um þessi mál, ná saman eða jafnvel ekki, eins og hefur komið fyrir, horfa á hvaða verkefni verið er að vinna þar, sem við getum nýtt okkur hér. Það á eins við um það þriðja sem ég ætlaði að koma inn á, sem er þingmannanefnd Eystrasaltsráðsins sem ég nefndi áðan. Þar er friðsamlegur borgaralegur vettvangur, einn af örfáum, þar sem Rússar sitja t.d. með öðrum vestrænum þjóðum og semja um hitt og þetta. Það er vissulega bundið við Eystrasaltið eins og nafnið ber með sér en við erum með fulltrúa í gegnum Norðurlandaráð og svo ekki síst í gegnum okkar ágætu tengsl við Eystrasaltslöndin.

Ég held að allt alþjóðasamstarf gefi okkur alltaf ótrúlega mikið og mig langar að enda á sömu nótum og ég hóf mál mitt á að taka undir mikilvægi þess að við séum óhrædd við að setja fjármuni í þetta samstarf af því að það skilar sér margfalt til baka, ég tek undir það. Allt alþjóðlegt samstarf skilar okkur miklu en samstarf við okkar nánustu nágranna sem á sér stað í gegnum Norðurlandaráð — ég tala nú ekki um Vestnorræna ráðið — er það samstarf sem mér finnst að við sem þjóð ættum að hafa mest í hávegum. Það er samstarf við okkar nánustu nágranna.