151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

aðgerðir á landamærum.

[13:31]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. 15. júní sl. þegar opnað var fyrir landamærin var fjöldi nýrra tilfella í heiminum tæplega 130.000 á dag og var vaxandi. Síðustu tölur segja að fjöldi nýrra tilfella í heiminum sé rétt rúmlega 300.000 á dag en fari fækkandi. Faraldurinn virðist sem betur fer vera að byrja að fjara út. Þá þurfum við að spyrja okkur og stjórnvöld þurfa að svara, sérstaklega miðað við að innanlandssmit eru nánast að hverfa á meðan staðan erlendis er enn verri en hún var þegar landamærin voru opnuð á síðasta ári. Við þurfum að fá svar við spurningunni: Hvenær hverfa rök fyrir takmörkunum innan lands og hvað geta stjórnvöld gert til að flýta fyrir?

Einungis 4.300 erlendir ferðamenn komu til landsins í janúar, 4.300 á mánuði í samanburði við rúmlega 120.000 venjulega. Þarna liggur áhættan núna eftir rúmlega fjóra mánuði af ströngum sóttvarnaaðgerðum, áhættan um aðra bylgju áður en bólusetning hefur áhrif. Fréttir herma að nærri 200.000 Íslendingar verði bólusettir í september, 120.000 í júlí. Það eru fjórir mánuðir þangað til, sami tími og við höfum verið að glíma við nýliðna bylgju og sóttvarnaaðgerðir. Eigum við að halda niðri í okkur andanum í fjóra mánuði í viðbót svo við getum kannski fengið 20.000 ferðamenn til landsins á meðan eða getum við gert betur? Þurfum við að loka landamærum enn frekar eða getum við opnað landamærin meira þegar allir viðkvæmir og forgangshópar eru orðnir bólusettir? Ef svo er, hvenær er von á því? Það er nefnilega enga tímalínu um væntanlegar bólusetningar að sjá á vefnum bóluefni.is. Enginn fyrirsjáanleiki nema óljósar tölur um bólusetningar í júlí til september sem eru reiknaðar út frá norskum tölum í fjölmiðlum. Þar segir einnig að það geti orðið allt að tveggja mánaða seinkun á þeim sendingum. Heilbrigðisráðherra segir að hægt verði að bólusetja þorra þjóðarinnar á fyrri helmingi árs en það er ekki í júlí. Hvað þýðir þorri þjóðarinnar og hvaða áhrif hefur það á sóttvarnaaðgerðir?