151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

aðgerðir á landamærum.

[13:33]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina sem annars vegar snýst um fyrirsjáanleika í sóttvarnaráðstöfunum, hvort sem er innan lands eða á landamærunum, og hins vegar um bólusetningar. Staðan hér á landi er auðvitað góð núna þegar kemur að faraldrinum. Við sjáum að nýgengi innanlandssmita er á mjög góðum stað, Ísland er eitt af örfáum löndum í Evrópu sem er grænt, en nýgengi landamærasmita er töluvert hærra. Það liggur fyrir að við höfum ákveðið að halda óbreyttu fyrirkomulagi á landamærum til 1. maí. Þá horfum við til þess að taka upp það kerfi að vera með einfalda skimun fyrir þá sem eru frá grænum svæðum en tvöfalda skimunin haldi sér fyrir rauð svæði og horft verði til þess hvort hugsanlega verði hægt að nýta kröfu um neikvæð PCR-próf, eins og raunar öll lönd eru að taka upp, fyrir þá sem eru þar á milli, þ.e. á appelsínugulum og gulum svæðum. Þetta er sá fyrirsjáanleiki sem ég vonast til að muni halda og að sjálfsögðu hangir þetta sömuleiðis saman við framgang bólusetninga.

Í heildina tekið vil ég segja það að fyrirkomulagið sem við komum á á landamærunum 19. ágúst hefur svo sannarlega sannað gildi sitt. Það er einn af lyklunum að því að við erum á þessum góða stað núna hvað varðar faraldurinn innan lands, þ.e. fyrirkomulagið á landamærunum sem er tiltölulega einfalt, hefur verið tiltölulega óbreytt allan þennan tíma á meðan við höfum séð mörg önnur ríki vera að breyta fyrirkomulagi, taka upp takmarkanir frá þessu landinu í dag og hinu landinu á morgun. Þess vegna tel ég að þetta sé gott kerfi og við eigum að byggja á því áfram eins og við gerum ráð fyrir eftir 1. maí.

Hvað varðar framgang bólusetninga þá teljum við að fram til loka mars séum við með bóluefni fyrir í kringum 40.000 einstaklinga og þetta liggur fyrir á heimasíðunni (Forseti hringir.) sem þingmaðurinn vitnaði til. En það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að óvissan er enn töluverð um hvernig afhendingaráætlun mun ganga á öðrum ársfjórðungi og ég fer nánar yfir það í síðara svari.