151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:32]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég nefni annað atriði sem er í stjórnarskrá og viðhorf samfélagsins hafa breyst gagnvart með tímanum en það er embætti forseta Íslands og hlutverk hans. Hér er verið að leggja til eðlilegar breytingar hvað varðar þann kafla. Ég spyr hv. þingmann hvort þar sé gengið of langt. Við erum einfaldlega ósammála um að ekki eigi að fjalla um auðlindirnar í stjórnarskránni. Stjórnarskráin fjallar um mörg af stærstu viðfangsefnum samtímans og á að vera þessi rammi, þessi boðorð, sem öll önnur löggjöf þarf að ríma við. Þó að það sé ekki nákvæmlega útlistað til hversu langs tíma á að gera samninga eða hver krónutalan eigi að vera fyrir hið eðlilega endurgjald hefði mér fundist lagalega og pólitískt skynsamlegt, fyrst lagt er upp í þessa vegferð, að skapa hér ákvæði um auðlindirnar, að reyna að ná fram þeirri sátt sem svo lengi hefur verið kallað eftir, með því að gera það þá skýrt, meira en bara í greinargerð, meira en í pólitísku samfélagi hér inni í sal eða í fjölmiðlum, hvað það þýðir að þessi auðlind sé í þjóðareign og hvernig við ætlum að tryggja það. Síðan má útfæra það nákvæmlega í almennri lagasetningu hvernig gjaldtakan fer fram, til hve langs tíma má gera samninga o.s.frv. Það er ekkert, hvorki í tillögu hæstv. forsætisráðherra né í breytingartillögu Viðreisnar, sem fellur í þá gryfju að ramma þar inn einhver viðmið sem standast ekki tímans tönn. Það er bara ekki þannig.