151. löggjafarþing — 54. fundur,  11. feb. 2021.

stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

466. mál
[17:34]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Ég ætla að skella mér örstutt í forsöguna að þessu máli. Oft er nefnt að atkvæðagreiðslan um stjórnlagaþing hafi nú verið dæmd ólögleg og þar af leiðandi sé allt þetta ferli ómögulegt og svona en enginn hefur haldið því fram nema þeir sem eru á móti því að stjórnarskránni sé breytt. Þetta er bara niðurstaða sem varð og þingið gerði í kjölfarið það sem þingið getur alltaf gert, það skipaði hóp eða nefnd eða ráð til að koma með tillögur að frumvarpi, sem er nákvæmlega það sem var gert, sem er nákvæmlega það sem þessi ríkisstjórn hefur margoft gert á þessu kjörtímabili, skipað fullt af nefndum til að koma með alls konar tillögur um hin og þessi frumvörp og þess háttar. Það er nákvæmlega ekkert flókið í því ferli.

Niðurstaða stjórnlagaráðs var sett í þjóðaratkvæðagreiðslu, vissulega með ágreiningi milli flokka. En það er nú þannig að það eru ekki endilega þeir sem hafa uppi ágreining sem hafa rétt fyrir sér. Við getum t.d. fjallað um ágreininginn um Landsrétt, það var ágætiságreiningur um það mál hér á þingi. Síðan hefur komið berlega í ljós hverjir höfðu rétt fyrir sér um það, það voru þeir sem höfðu uppi ágreining í því máli. Svo er hægt að taka þriðja orkupakkann, þar kom berlega í ljós að þeir sem höfðu uppi ágreining höfðu ekki rétt fyrir sér, þannig að það hefur sitthvað með það að gera þegar við förum og skoðum ágreining um hvort fara eigi í þjóðaratkvæðagreiðslur eða hvernig á að fara með niðurstöður þeirra o.s.frv.

En niðurstaðan er skýr: Þrátt fyrir að kvartað sé yfir að þátttaka hafi verið lítil í þjóðaratkvæðagreiðslunni þá virkar það bara þannig í lýðræðissamfélagi að þeir ráða sem mæta á kjörstað og kjósa. Þeir sem mæta ekki treysta þeim sem mæta til að ráða niðurstöðunni. Þannig er það. Það vita allir. Þá þýðir ekkert að kasta því fram sem einhvers konar rökum í málinu að þátttaka hafi verið lítil. Niðurstaðan er samt skýr.

Framhaldið af niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar hefur síðan einfaldlega ekki verið unnið af heilum hug eða hannað til þess að skila árangri. Sitt sýnist hverjum um í hvaða ríkisstjórn er þar verið að vísa. Ég held að frumvarp hæstv. forsætisráðherra sé lagt fram af heilum hug, en það ferli sem leiddi að því var alls ekki hannað til að skila árangri. Það var hægt að segja frá fyrsta degi að það kæmi ekki til með að skila árangri. Það hefur verið sagt opinberlega, bæði af hæstv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra, að í rauninni var aldrei búist við því að það myndi gera það, kannski var vonast til þess einhvers staðar á bak við tjöldin eða eitthvað svoleiðis. En það hefur alveg komið fram í opinberri umræðu að það var í rauninni aldrei nein bjargföst trú á því frumvarpi, eitthvað mikið hefði þurft að gerast til þess að það hefði skilað árangri.

Ég var við 1. umr. hérna þegar málið var fyrst tekið á dagskrá. Þá fór hv. formaður Framsóknarflokksins mikinn og talaði um að það væru þeir sem vildu heildarendurskoðun á stjórnarskránni sem væru að tefja ferlið varðandi það að setja nýja stjórnarskrá samkvæmt niðurstöðum þjóðaratkvæðagreiðslu. En ég hef haldið því fram í umræðunni að það sé einmitt ágreiningurinn um auðlindaákvæðið sem hafi helst stoppað það. Það eru þeir hagsmunir sem birtast í því ákvæði sem tafið hafa ferlið aftur og aftur, bæði hérna inni og eins úti í samfélaginu. Það er togstreitan um hvernig stjórnmálin hafa fært þá túlkun sem lögð var fram í frumvarpi stjórnlagaráðs um fullt gjald yfir í eðlilegt gjald og sagt að það væri ákveðið vantraust á því að þar lægi að baki heill hugur eða heiðarleg stjórnmál. Ég er ekki sammála því. Það eru rök á bak við eðlilegt gjald en líka rök á bak við fullt gjald. Þess vegna hef ég meira að segja lagt til að bæði sé betra. Hægt er að hafa hvort tveggja í því orði sem hæstv. forsætisráðherra kemur með inn í þessa umræðu um hvort auðlindin sé nýtt í ábataskyni eða ekki.