151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

starfsemi Samherja í Namibíu.

[13:12]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður gerir hér að umtalsefni, ef ég skildi hv. þingmann rétt, eru tvö mál. Annars vegar er sú yfirlýsing sem ríkisstjórnin gaf í nóvember 2019 í kjölfarið á þeirri umfjöllun sem var í fjölmiðlum um starfsemi Samherja í Namibíu og viðbrögð okkar í því efni sem ég tel að hafi í öllum meginatriðum gengið ágætlega eftir, þær aðgerðir sem ríkisstjórnin tilkynnti um 19. nóvember. Þetta verkefni sem hv. þingmaður nefnir hér, úttektin hjá FAO hefur dregist, það er alveg rétt. Það eru 450 og eitthvað dagar síðan þessi tilkynning kom en af ýmsum ástæðum dróst fullnusta þessa verks og hún gat hér alla vega um eina ástæðu. Ég veit ekki nákvæmlega hvar þetta stendur í dag en ég hef verið að ýta á eftir því að þessi tillaga og þessi aðgerð gangi fram. Mitt fólk í ráðuneytinu með starfsfólki FAO hefur verið að vinna að því að fullnusta samkomulag um þetta en á þessari stundu veit ég ekki nákvæmlega hvar það stendur. Ég get alveg komið upplýsingum til hv. þingmanns um það þegar ég get gengið eftir þeim svörum. En það síðasta sem ég veit af þessu er það að ég hef verið að ýta á eftir því að þetta yrði unnið.