151. löggjafarþing — 55. fundur,  16. feb. 2021.

málefni innflytjenda.

452. mál
[17:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef kannski ekki verið nógu skýr í fyrri spurningu minni. Ég var ekki að spyrja hv. þingmann hvort hann væri hlynntur því að fólk notaði hælisleitendakerfið til þess að leita betri lífskjara. Það liggur fyrir hver skoðun hv. þingmanns er á því og reyndar deili ég þeirri skoðun með hv. þingmanni og ég veit ekki um neinn sem er annarrar skoðunar hér í þingsal. Hins vegar blasir við að það er engin leið fyrir þetta fólk til að koma hingað og leita betri lífskjara. Það er engin lögleg leið til þess. Það er vandinn sem ég vil laga. Það mega alveg vera einhver skilyrði. Það finnst mér alveg eðlilegt á meðan heimsmyndin er eins og hún er í dag. En ég var að spyrja sérstaklega um breytingar á útlendingalögum til að gera þetta mögulegt yfir höfuð. Mér finnst nefnilega ákveðin mótsögn í því að standa hér og segjast bera virðingu fyrir því að fólk leiti betri lífskjara en vilja hins vegar ekki gera neitt til þess að aðstoða við það. Mér finnst það vera ákveðin mótsögn. Mér finnst það vera málflutningur sem er hannaður til þess að gera það þægilegra að vera þeirrar skoðanir sem hv. þingmaður er, þ.e. að vera á móti því að fólk geti flutt hingað til landsins. Sömuleiðis vil ég minna á það, ég hef ábyggilega (Forseti hringir.) sagt þetta mjög oft, að það eru u.þ.b. 500 milljón manns sem mega flytja hingað í dag (Forseti hringir.) en einhvern veginn kemur flóðið ekki frá Evrópu.