151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

Evrópuráðsþingið 2020.

493. mál
[14:25]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég get sannarlega tekið undir það að auðvitað er það lykilatriði varðandi þátttöku okkar í erlendu samstarfi að ekki séu takmarkanir á því hversu mikið þingmenn geta tekið þátt og það gefur augaleið ef verið er að segja: Við eigum að taka þátt en við eigum samt ekki að taka of mikinn þátt, sækja kannski bara hluta funda. Ég veit að oft hefur verið vandamál að fá hreinlega heimild til þess að sækja fleiri fundi, jafnvel fyrir fólk sem gegnir formennsku eða öðrum mikilvægum hlutverkum innan Evrópuráðsins. Það er ekki gott, það sýnir metnaðarleysi af okkar hálfu sem við viljum aldrei sýna. Það sýnir líka að við setjum þennan málaflokk, alþjóðamál, of lítið í forgang. Sem betur fer hef ég ekki lent í þessu í EFTA-nefndinni en það er kannski minna að gera þar en í Evrópuráðsþinginu.

Hvað varðar gervigreind, og til að ég skilji það örugglega, er í skýrslunni talað um að teknar hafi verið fyrir bæði ályktanir og tilmæli — er ég að misskilja þetta eitthvað? Eru þetta í rauninni skýrslubeiðnir sem var verið að samþykkja eða eru þetta endanlegar skýrslur sem voru teknar fyrir? Ég átta mig ekki á því. Ég hef aldrei verið í Evrópuráðsþinginu og skil ekki alveg hvernig hlutunum er háttað þar.