151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

auðlindir og auðlindagjöld.

127. mál
[16:04]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir þingsályktunartillögu um auðlindir og auðlindagjöld. Flutningsmenn ásamt mér eru allir þingmenn Miðflokksins. Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að skipa starfshóp sem:

1. skili tillögum um hvort innheimta eigi afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá hvaða auðlinda,

2. leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengið fyrir allar auðlindir og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða,

3. taki saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku af auðlindanýtingu er háttað í nágrannaríkjum.

Starfshópurinn skili ráðherra tillögum eigi síðar en 1. maí 2021.“

Þingsályktunartillaga þessi var síðast lögð fram á 150. löggjafarþingi og var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar sem sendi málið til umsagnar. Tillagan var áður lögð fram á 146., 147. og 149. löggjafarþingi, og er hér lögð fram einn ganginn enn. Við skulum bara segja: Dropinn holar steininn og vonandi fær þessi tillaga góða afgreiðslu í viðkomandi nefnd sem verður þá efnahags- og viðskiptanefnd.

Í tillögu þessari er lagt til að fjármála- og efnahagsráðherra feli starfshópi að kanna hvort innheimta skuli afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá af hvaða auðlindum. Einnig er lagt til að starfshópurinn leggi fram tillögu um aðferð við álagningu auðlindagjalds og geri grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða. Þá verði teknar saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku sé háttað í nágrannaríkjunum, einkum á Norðurlöndunum.

Flutningsmenn telja rétt að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að skipa starfshópinn enda liggur ekki fyrir nú þegar um hvaða auðlindir er að ræða og hverjar geta fallið undir fleiri en eitt ráðuneyti og stofnanir. Jafnframt er málefnið umfangsmikið og brýnt auk þess sem það hefur verið til umræðu um árabil og er því eðlilegt að fjármála- og efnahagsráðherra stýri vinnunni.

Lengi hafa verið uppi væntingar um að auðlindir landsins skili þjóðinni fjárhagslegum arði með einum eða öðrum hætti. Í gegnum tíðina hafa fyrirtæki í eigu ríkisins greitt arð í ríkissjóð og nægir þar að nefna Landsvirkjun.

Auðlindir sem almennt er talað um sem auðlindir „þjóðarinnar“ geta verið af ýmsum toga, þ.e. auðlindir í sjó, í lofti eða á landi. Þekkt er að innheimt er veiðigjald í sjávarútvegi samkvæmt lögum um veiðigjald, nr. 145/2018, áður nr. 74/2012, og ríkir nokkur samstaða um álagningu þess þó að deilt sé um hversu hátt það eigi að vera.

Flutningsmenn telja ekki eðlilegt að auðlindagjald sé aðeins lagt á eina atvinnugrein. Mikilvægt er því að mótuð verði heildstæðari stefna enda hefur nýting auðlinda áhrif á umhverfið og brýnt er að tryggt verði að auðlindir séu nýttar á skynsamlegan og arðbæran hátt. Flutningsmenn vilja jafnframt minna á að fram hafa komið hugmyndir um stofnun stöðugleikasjóðs að fyrirmynd norska olíusjóðsins þar sem arður af auðlindum í ríkiseigu myndi renna allur eða að hluta í slíkan sjóð.

Auðlindanefnd, sem kosin var á Alþingi í júní 1998, ritaði álitsgerð fyrir forsætisráðuneytið sem kom út árið 2000. Hluti af verkefnum hennar var að fjalla um gjaldtöku af auðlindum til að standa undir rannsóknum á þeim og stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu þeirra, svo og til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skilaði sér á réttmætan hátt til þeirra sem hafa hagsmuna að gæta. Í niðurstöðum nefndarinnar kom fram að hún teldi gjaldtöku af nýtingu náttúruauðlinda styðjast við eftirfarandi rök: Í fyrsta lagi að standa undir þeim kostnaði sem hið opinbera hefði af rannsóknum á og eftirliti með nýtingu auðlindanna, í öðru lagi að tryggja þjóðinni sýnilega hlutdeild í þeim umframarði, auðlindarentu öðru nafni, sem nýting auðlinda í þjóðareign skapaði og í þriðja lagi væri um að ræða svokallaða leiðréttandi skatta og uppbætur, svokallaða græna skatta, til að tryggja hagkvæma nýtingu auðlindanna. Þær auðlindir sem nefndin tilgreindi í álitsgerð sinni voru nytjastofnar á Íslandsmiðum og auðlindir á eða undir sjávarbotni, vatnsafl, jarðhiti og námur, rafsegulbylgjur til fjarskipta og önnur umhverfisgæði.

Hæstv. forseti. Þessi þingsályktunartillaga er skyld — ég get ekki sagt afkvæmi — annarri tillögu sem ég flutti á þingi og var samþykkt sumarið 2019, um skilgreiningu auðlinda. Þar var umhverfis- og auðlindaráðherra falið að fara í þá vinnu að skilgreina auðlindir lands og sjávar og kannski lofts, þær sem geta talist auðlindir þjóðarinnar. Ráðherra átti að skila frumvarpi þar að lútandi á síðasta ári en í svari frá ráðherra fyrir jól kom fram að sú vinna hefði ekki farið fram. Ráðherra bauðst til að mæta fyrir hv. umhverfis- og samgöngunefnd til að gera grein fyrir þeirri vinnu sem þó hefði farið fram um þá skilgreiningu. Ég vona að af því verði og mun ég fylgja því eftir að þessi vinna fari fram.

Það hlýtur að vera áhugamál hæstv. ráðherra að skilgreining fáist á því hvað telst til auðlinda og hvað ekki. Í framhaldi af því verður vinnan, sem talað er um í þessari tillögu, auðveldari. Hægt verður að leggja auðlindagjöld á fleiri auðlindir en sjávarútvegsauðlindina sem greiðir hið svokallaða veiðigjald eða auðlindagjald í dag, og ekkert nema gott um það að segja. Ég furða mig svolítið á því hvað þetta gengur rólega. Það hlýtur að vera dýrmætt fyrir þjóð eins og okkur að þetta geti gengið í gegn því að ekki veitir okkur af tekjunum. Ekki veitir okkur af að afla fjár á sem víðtækastan hátt í okkar magra ríkissjóð nú um stundir, og við þurfum auðvitað ætíð að afla tekna. Ég geri mér því vonir um að tillagan fái greiða afgreiðslu í efnahags- og viðskiptanefnd og ég mun fylgjast vel með þeirri vinnu á næstu vikum.