151. löggjafarþing — 56. fundur,  17. feb. 2021.

meðferð sakamála.

129. mál
[16:37]
Horfa

Flm. (Þorsteinn Sæmundsson) (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Það má kannski segja að hún hafi í ræðunni svarað þeim spurningum sem ég hyggst beina til hennar. Ég ætla engu að síður að spyrja svo afstaða hv. þingmanns komi skýrt fram. Við höfum dregið upp í greinargerð og í frumvarpinu sjálfu að hér séu hagsmunir sem vegist á. Annars vegar hagsmunir þeirra sem eiga erindi fyrir dóm, svo sem eins og vitna, meintra og þekktra sakborninga o.s.frv. og hins vegar upplýsingaskylda við almenning. Og nú langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að hagsmunir almennings vegi þyngra, þ.e. hagsmunir almennings af því að fá sem ítarlegastar myndir og fréttir af dómhaldi, og gangi lengra en réttur einstaklings sem er t.d. vitni í alvarlegu líkamsárásarmáli og stendur ógn af gerandanum sem er fyrir dómi sem meintur sakborningur. Telur hv. þingmaður það hagsmuni almennings að fá að vita að þetta meinta fórnarlamb þessa glæps, þessarar árásar, sé á leið í þinghús, til dóms, og standi ógn af meintum geranda? Er það sem sagt í þágu almannahagsmuna meira virði að mynd náist af viðkomandi en að sá aðili njóti einhverrar verndar fyrir árvökulum augum allra sem koma að málinu?