151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

staðgreiðsla við innborgun í lífeyrissjóð.

128. mál
[15:07]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Mig langaði nú bara til að koma hingað upp til að benda á þá staðreynd að þrátt fyrir að þessi ríkisstjórn sé að hæla sér af því að hafa lækkað skatta, ég held það hafi verið um 21 milljarðar kr. sem fóru í að rétta þeim tekjulægstu — það fór í gegnum alla línuna, við skulum átta okkur á því að það fór í gegnum alla línuna. Neðsta skattþrepið lækkaði líka hjá mér og ég er ekki klukkutíma, á mínum launum, að taka inn það fjármagn sem þeir langtekjulægstu fengu á mánuði vegna þessarar skattalækkunar, á heilum mánuði.

Ég hefði gjarnan viljað að hv. þm. Ólafur Þór Gunnarsson hefði verið áfram hjá okkur því að ég ætlaði að benda honum á að það liggur líka fyrir frumvarp, og Flokkur fólksins er margbúinn að mæla fyrir því, sem afnemur í rauninni algerlega skatta og skerðingar á fátæka og sárafátæka. Við erum búin að mæla fyrir frumvarpi sem kveður á um skattleysi og skerðingarleysi á alla fjármuni og tekjur undir 350.000 kr. á mánuði. Það er alvöruaðgerð. Hún sýnir vilja en hún sýnir líka vilja ríkisstjórnarinnar. Hún sýnir vilja ríkisstjórnarinnar sem segir að það að láta fátækt fólk bíða eftir réttlætinu sé í rauninni að neita því um réttlæti. En á sama tíma bíður þetta fátæka fólk.

Við höfum mjög auðvelda leið. Með því að skattleggja við innborgun í ríkissjóð erum við að taka inn í ríkissjóð hátt í 80 milljarða kr. Við þyrftum ekki að standa í því að réttlæta sölu á Íslandsbanka sem hefur gefið okkur milljarða á milljarða ofan í arðgreiðslur. Það sýnir sig í rauninni þótt verið sé að reyna að réttlæta það og segja: Við getum greitt niður vexti. Við erum ekki að borga neina vexti. Vaxtaprósentan sem ríkissjóður ber núna er algjörlega í sögulegu lágmarki og mjög hagstæð. Hún í rauninni miklu hagstæðari en nokkurn tíma það að ætla að réttlæta það að selja þann ábata sem við höfum haft af því að eiga okkar banka enn sem komið er. Það er ekkert sem segir að ríkið eigi ekki að reka banka, ekki neitt. Einu skiptin sem allt fór á hausinn í bankakerfinu var þegar þeir voru einkavæddir. Ég veit að það er enginn úti í samfélaginu sem nokkurn tímann velkist í vafa um það því að það er staðreynd.

En ég ætlaði ekki að halda aðra ræðu mikið lengri en þetta. Ég vildi bara endilega benda á að við erum með tækifæri hér. Nú er lag að sækja þessa fjármuni. Ég sagði í flutningsræðu minni að kannski væri athyglinnar virði að fá lífeyrisþegana sjálfa, þá sem eiga lífeyrissjóðina, til að svara skoðanakönnun um það hvernig þeim lítist á að fara með málið þangað að við myndum staðgreiða við innborgun í sjóðina og nýta þessa tugi milljarða í okkar eigin þágu, í þágu þeirra sem eiga sjóðina, í formi þess að afnema skerðingar, gefa fólki frelsi til að bjarga sér sjálft, hjálpa því til að vinna ef það mögulega getur, þvinga það ekki heim þegar það er komið á aldur, þrátt fyrir að það vilji vinna, vegna þess að um 80% eru hirt af því þegar upp er staðið.

Það er með hreinum ólíkindum hvernig augunum er lokað fyrir því hvernig þessi kerfi eru látin kúga tugþúsundir Íslendinga, þessi kerfi sem eru rammlega gerð hér, þessi fátæktargildra sem er svo rammlega byggð utan um tugþúsundir Íslendinga að þeir eiga ekki einu sinni kost á því að bjarga sér sjálfir út úr henni vegna þess að ríkisstjórnin hér leyfir það ekki. Þetta er með ólíkindum. En þarna erum við að benda á fjármuni sem hægt er að sækja í risastóran sjóð sem telur hátt í 6.000 milljarða kr., sjóð sem tekur inn yfir 200 milljarða á ári, lífeyrissjóði sem þurfa að fjárfesta fyrir yfir 17 milljarða á mánuði. Af hverju í ósköpunum er svona óeðlilegt að við sem eigum sjóðina og þjóðin öll fái að nýta þá ávexti sem hugsanlega gætu algerlega gert gæfumuninn? Ekkert hugsanlega, það myndi gera gæfumuninn fyrir stóran hluta þjóðarinnar.

Öll þessi „mantra“ um hvað við erum að verða gömul og hvað við lifum lengi, það virðist vera alveg ógn og skelfing að við skulum ekki detta niður fyrr, öryrkjum fjölgar mikið og ég veit ekki hvað og hvað — en við skulum líka átta okkur á því að með því að hætta að skattleggja fátækt og gefa fólki kost á því að hafa einhverjar krónur á milli handanna skilar það sér út í samfélagið beint aftur. Það kemur bara, það skilar sér rétta leið. Við munum öll standa uppi sem sigurvegarar og hið háa Alþingi mun líka öðlast meira traust almennings. Við munum líka sýna úr hverju við erum gerð. Við munum sýna að við erum hér til að vinna fyrir fólkið í landinu. Við munum sýna að við erum ekki hagsmunatengd, að við erum ekki bara að moka undir einhverja ákveðna hagsmunaaðila sem við erum kjörin hér inn til að sinna. Við munum sýna að við erum hér til að vinna fyrir alla. Það gerir Flokkur fólksins. Við erum hér til að vinna fyrir alla. Við erum ekki að vinna fyrir hagsmunaöfl. Við erum ekki að vinna fyrir suma. Fyrst og síðast erum við málsvari þeirra sem höllum fæti standa í þessu samfélagi og hokra hér í sveita síns andlitis í boði þessarar ríkisstjórnar.