151. löggjafarþing — 58. fundur,  23. feb. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna okurs á tímum hættuástands.

148. mál
[15:14]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegi forseti. Mikið afskaplega er nú gaman að fá að vera svona mikið með ykkur. Hér mæli ég fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna okurs á tímum hættuástands. Það er ekki algjörlega úr lausu lofti gripið heldur verður frumvarpið til í beinu framhaldi af því að við erum í rauntíma að ganga í gegnum skelfilegan heimsfaraldur.

Í 1. gr. I. kafla, breyting á lögum um almannavarnir, segir svo, með leyfi forseta:

„Á eftir 27. gr. laganna kemur ný grein, 27. gr. a, ásamt fyrirsögn, svohljóðandi:

Bann við okri á hættustundu.

Þegar eftirspurn eftir tilteknum vörum eykst til muna vegna hættuástands eða verulega dregur úr framboði á tilteknum vörum vegna hættuástands getur ríkislögreglustjóri kveðið á um hámarkssöluverð eða hámarksálagningu á innkaupsverð tiltekinna vara eða vörutegunda. Þegar kveðið hefur verið á um hámarkssöluverð eða hámarksálagningu á innkaupsverð er söluaðila skylt að veita ríkislögreglustjóra upplýsingar þar að lútandi, ef þess er krafist.“

Við erum ekki að segja að við viljum ekki frjálsan markað og frjálsa álagningu heldur einfaldlega að í þessu tilviki þurfi að koma á tryggu eftirliti. Það er nokkuð ljóst. Það er algerlega ólíðandi að fólk hafi ekki efni á því að ná sér í grímur í þessu tilviki, einnota hanska, spritt og handsápu. Það er nefnilega fólk sem hefur ekki efni á því að borða og það borðar ekki grímurnar og hanskana og sprittið. En það er sóttvörn í því. Það er alveg ömurlegt til þess að vita að við höfum horft upp á það hér, sérstaklega eins og í fyrrasumar, að verðið á þessu bara þaut upp. Það gjörsamlega rauk upp, það margfaldaðist verðið á sprittbrúsanum.

En ég ætla að halda áfram að vísa í frumvarpið og þá er 2. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Á eftir 33. gr. laganna kemur ný grein, 33. gr. a, svohljóðandi:

Einstaklingur eða lögaðili sem brýtur gegn fyrirmælum yfirvalda skv. 27. gr. a skal sæta sektum allt að 10 millj. kr. en að lágmarki 100.000 kr. Fjárhæð sektar skal taka mið af umfangi og alvarleika brotsins.“

Það á að vera hafið yfir allan vafa að þegar við hlítum ákveðnum fyrirmælum um að vernda okkur sjálf felast almannahagsmunir okkar í því að geta fylgt eftir þeim sóttvörnum sem okkur er uppálagt að fylgja, sem okkur hefur tekist alveg ótrúlega vel að framfylgja hér innan lands sjálf. Við höfum staðið saman sjálf. Það var sannarlega ekki því að þakka að landamæri hér væru vernduð í upphafi faraldursins. Það vorum við, þjóðin sjálf, sem snerum bökum saman og vorum ákveðin í því að passa okkur sjálf ef því var að skipta.

Í II. kafla, breyting á sóttvarnalögum, nr. 19/1997, segir, með leyfi forseta:

„Á eftir 16. gr. laganna kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:

Öllum skal tryggður aðgangur að sóttvarnabúnaði sem nauðsynlegur er til að fylgja lögum þessum og reglum og fyrirmælum settum á grundvelli þeirra.“ — Þetta er grundvallaratriði.

Það er lítið gagn í því, virðulegi forseti, að koma með alls konar tilmæli til þess að reyna að aðstoða okkur við að vernda okkur sjálf í samfélaginu ef við höfum svo ekki verkfærin til þess.

Í III. kafla er mælt fyrir um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940. Þar segir í 4. gr. og 5. gr:

„Á eftir 127. laganna kemur ný grein, 127. gr. a, svohljóðandi:

Hver sá sem á hættustundu okrar á neytendum í viðskiptum með nauðsynjavörur, sóttvarnavörur eða hvers konar vöru eða þjónustu sem stuðlar að vernd gegn yfirvofandi hættu, svo sem með því að hækka vöruverð án málefnalegra ástæðna eða vegna aukinnar eftirspurnar, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 3 mánuðum.

Lögaðili sem okrar á neytendum með þeim hætti sem greinir í 1. mgr. skal sæta sektum allt að 10 millj. kr.

Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Greinargerðin með frumvarpinu er ansi öflug. Frumvarpið var áður lagt fram á 150. löggjafarþingi, mál nr. 971. Ég mælti fyrir því í vor sem leið í kjölfarið á því að við vorum í miðju auga stormsins í svokallaðri fyrstu bylgju af Covidinu. Hér er ég í raun að mæla fyrir því algerlega óbreyttu. Ég átta mig eiginlega ekki á því hvers vegna þessi varnagli er ekki sleginn. Það er í rauninni með hreinum ólíkindum hvernig við virðumst alltaf grípa um rassinn þegar við erum búin að missa allt í buxurnar. Ég átta mig ekki á því af hverju við áttum okkur ekki á því að við tryggjum ekki eftir á. Í þessu tilviki er algerlega óásættanlegt að einn sprittbrúsi sé jafnvel fjórfaldaður í verði af því að lítið er til af vörunni. Hún er jafnvel fjórfölduð í verði sem gerir það að verkum að það er bara á færi sumra að kaupa hana. Gjörvallur þingflokkur Flokks fólksins er á frumvarpinu, sem ég gleymdi náttúrlega að segja í upphafi en hefði átt að gera, virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á því.

Ef hættuástand eykst getur það haft veruleg áhrif á verðlag þessara vara. Viðbrögð stjórnvalda við hættunni geta leitt til þess að eftirspurn eftir tilteknum vörum eykst verulega eða þá að verulega dregur úr framboði á vörum. Í slíkum tilvikum skapast þessi freistnivandi sem ég er áður búin að tala um. Ég ætla ekkert að fara alveg í gegnum greinargerðina. Það er kannski ekki ástæða til að lengja þetta en þetta er náttúrlega alveg frábær greinargerð og ég hvet ykkur öll til þess að kynna ykkur hana og lesa. Staðreyndin er sú að enginn er að tala um að taka frelsi almennt af verslunareigendum heldur að þeir taki líka þátt í alvarleikanum sem við erum að ganga í gegnum, án þess að ætla að reyna, umfram það sem nauðsynlegt er í sambandi við verðlagningu, að hagnast meira á því. Að hagnast á faraldri og svona lagað hugnast ekki Flokki fólksins að neinu leyti. Ég ætla að vona að það hugnist ekki öðrum þingmönnum frekar en okkur.

Ég er nú að hugsa um að ljúka þessu bara hér og nú. Þetta er ansi mikil og stór greinargerð og ég ætla ekki að þreyta ykkur á því að fara í gegnum hana alla. Meginmarkmið frumvarpsins er einfaldlega það að tryggja öllum sem þess þurfa aðgang að nauðsynlegum sóttvarnavörum á þeim hættutímum sem við erum að ganga í gegnum núna. Það er einfaldlega heimsfaraldur núna. Það á ekki að skipta máli hvort fólki er haldið í fátæktargildru, eins og tugþúsundum Íslendinga er haldið hér, það á líka rétt á því að geta fengið sér grímur, geta sótthreinsað hendur sínar og þvegið sér með sápu á svona tímum og fylgt þeim reglum og lögum sem fyrir okkur er lögð.