151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

störf þingsins.

[13:29]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Hæstv. forseti. Greining leghálssýna hefur verið flutt úr landi þvert á ráðleggingar sérfræðinga. Greiningu sýnanna er best borgið hér á landi vegna þeirrar þekkingar sem hér er og við viljum búa að því áfram. Allt tal heilbrigðisráðherra um aukin gæði og styttri boðleiðir stenst ekki, enda mátti heyra formann Félags íslenskra rannsóknarlækna segja í fréttum að meiri líkur væru á því að eitthvað færi úrskeiðis þegar sýnin væru send til útlanda. Það er fáránlegt að halda því fram að við séum of fá. Erum við þá ekki líka of fá til að standa að nýsköpun, þróun og svo mætti lengi telja? Ekki nóg með að í gangi sé aðför að heilsu kvenna, það er líka í gangi aðför að sérfræðistörfum á Íslandi. Landið okkar, Ísland, býr að því að eiga sérfræðinga í fremstu röð, til að mynda lífeindafræðinga. Ég get ekki betur séð en að flestir þeirra sem taldir eru upp á vefsíðu Félags lífeindafræðinga séu konur. Þannig að það er ekki nóg með að heilbrigðisráðherra ráðist gegn heilsu kvenna með þessum hætti heldur fer hún gegn kvennastétt sem býr yfir mikilli þekkingu. Í stað þess að nýta alla þá sérfræðiþekkingu sem við búum yfir hér á landi verðum við upp á aðrar þjóðir komin, í þessu tilviki Danmörku.