151. löggjafarþing — 59. fundur,  24. feb. 2021.

starfskjör launafólks og skyldutrygging lífeyrisréttinda.

233. mál
[16:25]
Horfa

Flm. (Birgir Þórarinsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það var ekki bein spurning í því sem hv. þingmaður hafði hér fram að færa. Hann er bara á móti frumvarpinu og það er lýðræðislegur réttur hans að sjálfsögðu. Ég nefni það hér og vil árétta það að verkalýðshreyfingin hefur kallað mjög eftir því að viðurlög verði við þeim brotum sem ég hef farið yfir hér í frumvarpinu. Ég ítreka það einnig að mikill meiri hluti atvinnurekenda kemur af sóma fram við starfsmenn sína en því miður er ákveðinn hópur sem hefur ítrekað brotið gegn launamönnum. Við því eru engin viðurlög og margir launamenn hafa þurft að sækja kröfur sínar um vangoldin laun í gegnum verkalýðsfélögin sem er tafsamt og langt og mikið ferli. Auk þess er þetta úrræði náttúrlega hugsað til þess að vera hindrun og hafa ákveðinn fælingarmátt í þessum efnum.

En ég ítreka líka að í frumvarpinu er sérstaklega tekið fram, og það er greinilegt að hv. þingmaður hefur nú bara skautað yfir frumvarpið og hefur ekki lesið það allt til enda, að hér er verið að tala um ítrekuð brot og stórfellt gáleysi. Svo eru þessi sektarákvæði bara hófleg, frá 50.000 kr. upp í 5 milljónir. Ég segi bara enn og aftur að þetta er mikilvægt mál sem skiptir launamenn í landinu miklu máli og er réttlætismál. Ég verð bara að segja að ég held að hv. þingmaður hafi eitthvað misskilið sumt í frumvarpinu og hann ætti að fara betur yfir það. En það er réttur hans og ef hann vill ekki styðja þetta þá er það hans mál.