151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008.

352. mál
[15:05]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Fyrst vil ég segja að þessi skýrsla sem við ræðum hér er afskaplega mikilvæg. Það skiptir máli að rannsaka og draga fram orsakir, afleiðingar og lærdóma af því sem fór úrskeiðis á fjármálamarkaði fyrir bankahrun, hrun sem setti efnahag þjóðarinnar á hliðina. Margir töpuðu miklum fjármunum og sumir misstu allt sitt. Einnig er mikilvægt að taka saman hvernig brugðist hefur verið við og hvað hefur verið gert til að forða því að slíkt hrun endurtaki sig. Þess vegna er skýrslan mikilvæg. Hún dregur fram það sem hefur verið gert og hvað skýrsluhöfundar telja að sé fullnægjandi eða ekki. Við þurfum ekki að vera sammála því mati í hverju einasta tilfelli en engu að síður er hér á ferðinni góð samantekt sem getur komið að gagni í áframhaldandi umbótastarfi. Afar mikilsvert er að á fáum árum hefur aukið gagnsæi í stjórnsýslunni og skráningu upplýsinga auðveldað eftirlitshlutverk og gagnaúrvinnslu ásamt því að greiða aðgengi almennings að upplýsingum. Tækniframfarir munu enn auka á gagnsæið og gagnaöflun og -vinnslu. Ef nýsköpun í opinberri stjórnsýslu er ræktuð áfram mun hún skila skilvirkni og betri lausnum.

Í stuttri ræðu um þessa löngu skýrslu mun ég fjalla um þrennt: Skort á framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið 12 árum eftir hrun, lög um opinber fjármál og nauðsyn á nýrri þjóðhagsstofnun. Skýrsla þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar lagði áherslu á að marka þyrfti opinbera stefnu um fjármálamarkaðinn og að í henni kæmi fram skýr framtíðarsýn. Það hefur ekki enn verið gert. Frá bankahruni hefur ekki farið fram nauðsynleg almenn umræða um það hvernig almenningur vill að bankakerfið þróist hér á landi og hvað þurfi til að koma til móts við vilja almennings í þeim efnum. Skapa þarf traustan grundvöll fyrir stefnumörkun með umræðu í samfélaginu. Traust til fjármálakerfisins hefur ekki verið endurheimt frá hruni. Svara þarf þeirri spurningu hvernig bankakerfið tryggi góða og trausta þjónustu við fólk og fyrirtæki. Samhliða örri tækniþróun og nauðsyn grænna fjárfestinga eru augljósar áskoranir til staðar í fjármálaumhverfinu. Vega þarf og meta kosti samfélagsbanka, leitast við að laða að æskilega eigendur fjármálastofnana með þekkingu á bankarekstri og mikilvægt er að breytt kerfi verði til þess að áhætta í fjárfestingarbankastarfsemi verði áhyggjuefni eigenda fjárfestingarbanka en ekki ríkisins. Þar liggur mikilvægur lærdómur bankahrunsins.

Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis kemur fram að nefndin telji að efnahagsstjórn ríkisfjármála hafi átt þátt í að skapa ofþenslu, eignaverðbólgu og lánsfjáreftirspurn í aðdraganda falls bankanna. Stefnan í ríkisfjármálum hafi verið ósveigjanleg og ýmsum þensluhvetjandi aðgerðum hafi verið hrint í framkvæmd þótt efnahagsaðstæður hafi ekki gefið tilefni til þeirra. Til að bregðast við þeirri réttmætu athugasemd var hafist handa við undirbúning nýrra laga um opinber fjármál árið 2011. Lögin tóku gildi 1. janúar 2016 og á þau er komin nokkur reynsla. Þau eru viðamikil og ekki hafa allar greinar tekið gildi enn þá. Má þar nefna dæmi um ákvæði um að tilgreina í ríkisreikningi tekjur af auðlindum þjóðarinnar. Skipulögð stefnumörkun og áætlunargerð stjórnvalda á öllum málasviðum og fyrir alla málaflokka er eitt af því sem lögin kveða á um og er sérlega jákvætt, vinnubragðaferlar sem ég tel að skili miklu betri rekstri og skilvirkni í rekstri ríkisins ásamt fyrirsjáanleika fyrir stofnanir ríkisins.

Hins vegar er nauðsynlegt að endurskoða nokkur ákvæði. Þar vil ég fyrst og fremst nefna 7. gr. laganna um fjármálareglurnar þrjár. Reglurnar segja í fyrsta lagi að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu. Í öðru lagi að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en sem nemur 30% af vergri landsframleiðslu. Í þriðja lagi að ef skuldahlutfall er hærra en 30% skuli sá hluti sem umfram er lækka á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% að meðaltali á hverju ári. Þetta eru mjög strangar reglur og geta orðið til óþurftar. Nú í djúpri efnahagslægð hefur reglunum verið kippt úr sambandi enda óvinnandi vegur við núverandi ástand að fylgja þeim eftir. Ef reglurnar fá að standa óhreyfðar er nokkuð ljóst að reglan um hallalausan rekstur verður notuð sem afsökun til að draga úr opinberri þjónustu og selja eignir ef við völd verða hægri flokkar þegar þær taka aftur gildi. Ábendingum rannsóknarnefndar Alþingis var ekki ætlað að leiða okkur í þá átt.

Forseti. Það er löngu tímabært að Alþingi bregðist við skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um hana og endurreisi Þjóðhagsstofnun. Lög um opinber fjármál kveða á um að fjármálaráð skuli leggja mat á fjármálastefnu og fjármálaáætlun stjórnvalda. Fjármála- og efnahagsráðuneytið lýtur pólitísku valdi og er því ekki óvilhallt ráðandi stjórnvöldum á hverjum tíma. Með því að setja á stofn sjálfstæða stofnun sem heyrir undir Alþingi til að fjalla um efnahagsmál væri tekinn af allur vafi um pólitísk áhrif á þær forsendur sem fjármálaráð byggði vinnu sína á. Brýnt er að í landinu sé stofnun sem treysta má með nokkurri vissu að dragi ekki taum ákveðinna hagsmunaafla í þjóðfélaginu heldur hafi þjóðarhagsmuni ávallt að leiðarljósi.