151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

ábendingar sem varða stjórnsýsluna í rannsóknarskýrslum Alþingis um orsakir falls íslensku bankanna 2008.

352. mál
[15:11]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Við erum hér að ræða skýrslu hæstv. forsætisráðherra um ábendingar sem varða stjórnsýsluna sem fram koma í umfangsmiklum rannsóknarskýrslum nefnda á vegum Alþingis um aðdraganda og orsakir falls banka og sparisjóða og um Íbúðalánasjóð og viðbrögð við þeim ábendingum. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir þessa skýrslu. Ég skal viðurkenna þegar í upphafi að ég hef ekki náð að lesa hana alla í samhengi en það er augljóst að tekist hefur afar vel að formgera þetta verkefni. Þetta er gríðarlega umfangsmikið verkefni. Ég vil taka undir það sem hæstv. forsætisráðherra kom inn á varðandi þær fjölmörgu umbætur sem hafa verið gerðar síðastliðinn áratug á stjórnkerfinu, í lagasetningu, í lagaframkvæmd, að það að taka þessa skýrslu saman eins og hér er gert mun styðja við skilvirkari aðgerðir fram á veginn, í frekari umbótum. Það er afar mikilvægt. Mér finnst það eiginlega standa upp úr sem fyrstu viðbrögð við þessari skýrslu.

Það er gagnlegt að draga saman hvaða ábendingar, sem við getum sagt að hafi komið fram í viðamiklum skýrslum rannsóknarnefndanna, hafa leitt til breytinga og fá betri yfirsýn yfir þær fjölmörgu breytingar og lagfæringar um leið. Það hefur verið mjög erfitt þegar maður hefur flett í gegnum þær skýrslur í gegnum tíðina að glöggva sig á því hvað væri raunverulega búið að gera. Þess vegna er mikilvægt að sýna fram á, eins og hér er gert, að öll sú vinna sé að skila sér. Hvort það skili sér í auknu trausti er síðan erfitt að fullyrða um en við erum hér um 13 árum síðar frá falli þeirra fjármálastofnana sem skýrslurnar fjalla um að meta afraksturinn með þessari greiningarvinnu og hvernig tekist hefur til við að bæta úr og fylgja þeim ábendingum sem fólust í skýrslunum. Reyndar er talað í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis um fall bankanna um stóran kerfislægan vanda fremur en að þar séu vel afmarkaðar ábendingar. Það er m.a. það sem ég sé sem kost í þessari vinnu hér, reynt er að draga þetta betur saman og skýra. Það er mjög til bóta því að oft hefur maður gluggað í þá skýrslu og kannski verið aðeins óljóst hvar eigi að bera niður til að bæta um betur.

Þá kemur hérna fram að síðasta rúma áratuginn höfum við farið í viðamiklar aðgerðir sem snúa að fjármálakerfinu. Það er óhætt að fullyrða að í samanburði við þann tíma höfum við í dag öflugri stjórnsýslu og skýrari verkferla og þéttari löggjöf að því leytinu til, á þessu sviði. Það er mikilvægt að læra af reynslu og girða fyrir að viðlíka ástand skapist aftur. Afleiðing slíkrar reynslu hlýtur alltaf að verða mikil tortryggni. Við þurfum ekki annað en að horfa til fyrirhugaðrar sölu á Íslandsbanka til að sjá hvernig þessi tortryggni birtist þrátt fyrir allar breytingar á regluverki fjármálakerfisins, til að mynda í umræðu undanfarnar vikur. Það er hins vegar eðlilegt og það er skiljanlegt að almennt mætum við slíkum fyrirætlunum af tortryggni og varúð. Við erum enn að byggja upp og ávinna okkur traust og þess vegna er þessi skýrsla mjög gott innlegg í þá vegferð að vinna það traust til baka, þó að það verði auðvitað aldrei fullkomið traust á slíkar aðgerðir og það verður í raun og veru alltaf að vera þannig að það sé vefengt til að treysta framkvæmd. Þetta er eins og gott endurmat á stöðugri vegferð sem lýkur aldrei og við getum alltaf bætt.

Niðurstöður og ábendingar rannsóknarnefndanna og skýrslurnar skildu eftir áleitnar spurningar og opnuðu sýn á veikleika og þess vegna voru þær skýrslur, en sú skýrsla sem hér er dregur saman ábendingar þeirra, mjög nauðsynlegar á þeim tíma, ég hef eiginlega ekki annað orð yfir það. Ég get tekið dæmi: Ferli einkavæðingarinnar í aðdraganda falls bankanna. Það er auðvitað gagnrýnt. Þar er afhjúpað ógagnsætt ferli, pólitísk afskipti um of, óvandaðir starfshættir. Það er farið mjög vel yfir það í þessum skýrslum. Við því hefur á margan hátt verið brugðist og við þurfum líka á því að halda að viðurkenna það sem vel er gert. Það er auðvitað alltaf mikilvægt að reyni á að löggjöfin og umbúnaðurinn tryggi aukið gagnsæi, vandaðri vinnubrögð þegar um kerfislega mikilvæg fyrirtæki er að ræða. En þetta er auðvitað bara eitt dæmi um hvað við erum raunverulega fjalla að um hér, virðulegi forseti.

Regluverk fjármálastofnana er gerbreytt. Ég held að það sé algerlega óumdeilt. Hvort það megi treysta og betrumbæta — alveg örugglega. Við þekkjum úrbætur á umbúnaði og verklagi sölumeðferðar eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum. Við höfum rætt það mjög mikið hér undanfarnar vikur, eðlilega. Ég ætla að vísa í þrjár meginbreytingar sem eiga að stuðla að bættu verklagi við sölu á eignum ríkisins. Í fyrsta lagi almenn eigendastefna fyrir hluta- og sameignarfélög í eigu ríkisins og eigendastefnu fyrir fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins þar sem Bankasýsla ríkisins fer með umsýslu eignarhluta og á að tryggja að armslengdarsjónarmið nái fram ásamt því að skilgreina betur stjórnskipulag og ábyrgðarskiptingu í rekstri þessara félaga. Þá er einnig fjallað um viðmið og markmið varðandi mögulega sölu á eignarhlutum í fyrirtækjum. Í öðru lagi má vísa í lagasetningu varðandi sölu á fjármálafyrirtækjum í eigu ríkisins og í þriðja lagi voru sett ákvæði í lögum um opinber fjármál um sölumeðferð eigna ríkisins, þar með talið hluti í félögum. Þessi skýrsla geymir fjölmargar aðgerðir þannig að ég er bara að draga fram það sem við höfum verið að fjalla hvað mest um hér undanfarnar vikur og tengist fyrirhugaðri sölu á hlut í Íslandsbanka, sem dæmi. Núna fyrr í dag vorum við að samþykkja varfærna og skynsamlega leið til að draga varnarlínu í sandinn um það sem við köllum aðskilnað á milli viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi. Verkefninu lýkur aldrei, það heldur áfram.

Regluverkið og eftirlitið á sínum tíma fékk auðvitað falleinkunn í orðsins fyllstu merkingu, eignarhaldið, fagmennskan, hversu auðvelt ferli það var að eignast og stjórna banka án krafna um reynslu og þekkingu, færni, fjárstyrk o.s.frv. Það er búið að bæta úr öllu þessu. Þetta skiptir máli í þessu samhengi og blasir við að um leið og dreift eignarhald getur verið æskilegt þurfa þeir aðilar sem eiga og stjórna fjármálafyrirtækjum að vera hæfir til þess.

Reglur um eignarhald fjármálafyrirtækja hafa breyst töluvert og í dag eru gerðar miklar kröfur til þeirra sem kunna að eignast fjármálastofnanir og fara með stjórn þeirra. Þeir þurfa að standast ítarlegt hæfismat sem byggir á ítarlegri greiningu á fjölmörgum þáttum og ströngu mati á hæfi. Heimildir til handa Fjármálaeftirlitinu ná til þeirra sem jafnvel eru ekki að fjárfesta, til þess sem kallað er virkur eignarhlutur. Þá hafa skyldur aðila sem eiga virkan eignarhlut er varða nauðsynlega upplýsingagjöf til Fjármálaeftirlits Seðlabankans verið auknar ásamt því að Fjármálaeftirlitið hefur viðvarandi eftirlit með hæfi þeirra og getur jafnframt sett takmarkanir á eignarhald aðila verði viðkomandi talinn óhæfur til að fara með virkan eignarhlut og það þrátt fyrir að hann hafi áður verið metinn hæfur til að fara með slíkan hlut. Það eru því raunverulega miklu öflugri heimildir í dag og augun á boltanum alla leið, á þá sem eru að fjárfesta og ætla sér að stýra þessum fyrirtækjum. Þannig hefur verið brugðist við fjölmörgum ábendingum. Við framtíðarsölu á hlutum ríkisins í ríkisbönkunum eigum við og verðum að geta treyst því að hæfir aðilar verði þar við stjórnvölinn með þessu virka aðhaldi. Þá hefur verið girt fyrir það að stærstu eigendur fjármálafyrirtækja geti nýtt aðstöðu sína með ótakmörkuðum aðgangi að lánsfé sem dæmi.

Ég sé að tíminn er fljótur að fara enda mikið efni sem við erum að fjalla um. Ég ætla rétt í lokin, virðulegur forseti, að ítreka þakkir mínar fyrir þetta verk. Þetta verður mjög gagnlegt. Ég var hugsi yfir því, þegar þessi skýrslubeiðni kom fram, hverju hún gæti skilað og hvernig ætti að nálgast þetta verkefni. Það er auðvitað vonlaust í örstuttri ræðu að ígrunda af nákvæmni allar þær aðgerðir sem búið er að fara í og það sem þessi skýrsla fjallar um. En mér finnst hafa tekist vel til. Það mun gagnast afar vel í framtíðarverkefnum um að treysta og bæta stjórnsýslu. Um það er ég sannfærður, virðulegi forseti.