151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

hagkvæmisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

259. mál
[17:22]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í máli hv. þingmanns þá er ég einn af flutningsmönnum þessa máls. Ég vil þakka fyrir tækifærið til að ljá því stuðning minn og finnst nú rétt að þakka líka þeim sem fyrstur bar málið fram hér á þingi, hv. varaþingmanni Bjarna Jónssyni, sem verið hefur ötull talsmaður samgöngubóta á svæðinu. Þó að við beinum öll hér sjónum okkar að einum vegi má líta á þennan fjórðung allan. Það eru holur víða. Hægt væri að nefna Vatnsnesveg eða Reykjaströnd eða Hegranes eða vegina alla í Árneshreppi. Það er víða pottur brotinn. En þessi bútur, Skógarstrandarvegurinn, virðist vera svo viðráðanlegur. Þetta er láglendisvegur. Það á ekki að vera mikið mál að gera þetta og hann myndi tengja saman tvo hnúta í fjórðungnum þar sem annars þarf að fara rosalega hjáleið til þetta sé eitt svæði.

Þingmaðurinn sagði að þetta hefði gleymst. Það er einmitt vandinn og það sem ég stranda alltaf á: Af hverju gleymdist þetta? Hvaða meinloka varð þess valdandi að þessi beini bútur á milli tveggja þéttbýliskjarna á Vesturlandi var ekki lagaður fyrir langa löngu síðan? Þótt ég hafi glaður stokkið á að vera meðflutningsmaður á þessu máli þá skil ég ekki af hverju við þurfum þetta mál. Það er spurning hvort hv. þingmaður geti eitthvað hjálpað mér að geta í eyðurnar þar.