151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

hagkvæmisathugun á uppbyggingu Skógarstrandarvegar.

259. mál
[17:25]
Horfa

Flm. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir andsvarið og tek glaður undir það að hv. varaþingmaður Bjarni Jónsson flutti þetta mál hér þegar hann sat sem varaþingmaður og ég fékk góðfúslegt leyfi hjá honum til að stela því. Þannig að hann á heiðurinn af því að þetta var flutt fyrst, það er mér ljúft og skylt að segja.

Af hverju hefur þetta gleymst? Ég var aðeins að tala um það í ræðunni áðan að menn voru svo fegnir því þegar vegurinn var færður yfir á Vatnaleiðina og Kerlingarskarð var aflagt. Það voru alls konar hugmyndir í gangi þarna áður. Brattabrekka var byggð upp. Þar áður hafði komið vegur upp Hnappadalinn yfir Heydal og voru alls konar áform í gangi um framtíð uppbyggingar á þessum vegum. En einhverra hluta vegna gleymdist þessi kafli og það er sorglegt. Við getum kannski kennt hruninu um, þetta var fyrir hrun. Það má kenna því um ýmislegt. Svo er þarna Álftafjörðurinn sem þarf að brúa og það er verkefni sem er sennilega eitthvað sem við þurfum að leysa. Bæði er það svolítið stórt verkefni og svo eru líka umhverfissjónarmið þar. Mér dettur í hug að þetta tengist hvað öðru í því að þetta gleymdist. En þetta fallega landsvæði, Dalir og Skógarströndin, Snæfellsness — í Dölunum er mesta lengd af malarvegum á landinu og eins í Húnavatnssýslu. Þannig að þetta svæði hefur algjörlega orðið út undan í samgöngumálum.