151. löggjafarþing — 60. fundur,  25. feb. 2021.

starfshópur um útgáfu öruggra opinberra skilríkja.

260. mál
[17:40]
Horfa

Olga Margrét Cilia (P):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsöguna. Það eru nokkrir punktar sem „poppa út“, ef ég má sletta, þegar ég les yfir greinargerðina. Ef ég man rétt er það bara íslenska ríkið sem má gefa út opinber skilríki, hvort heldur sem það er á rafrænu formi eður ei. Ég hnýt um eitt: Það er auðvitað gott fyrir sum að þau skilríki séu aðgengileg á snjallsímum, en með því að gera opinbera hluti eða kerfi aðgengilegri í gegnum tölvur eða snjallsíma þá setur það náttúrlega meiri pressu á hinn almenna borgara að eiga slík tæki. Þannig að ég set spurningarmerki við að þetta sé endilega svo frábært fyrir öll.

Þegar rafrænu ökuskírteinin komu út á sínum tíma skildi ég ekki alveg hvað var svona frábært við þau, af því að það sem þú ert að gera með því að hafa ökuskírteini í símanum og lögreglan stoppar þig og biður þig um ökuskírteini, þá þarftu að opna símann þinn til að sýna lögreglumanninum ökuskírteinið. Með því ertu búin að opna aðgengi að símanum þínum sem geymir ýmiss konar aðrar upplýsingar líka.

Þetta kemur kannski svolítið inn á hvað telst vera öryggi, hvernig hægt er að tryggja að opinber skilríki eða opinber gögn séu örugg á t.d. snjallsímum. Ég veit ekki hvort hið opinbera sé best til þess fallið að tryggja öryggi þar sem mér hefur fundist hið opinbera gera mjög skrýtna samninga m.a. þegar kemur að því hvort allt sem er í skýinu hérna eigi að vera hjá Microsoft. Sem persónuverndarráðgjafi set ég stórt spurningarmerki við það.

Ég hnýt sérstaklega um að talað sé um Auðkenni ehf. Ef það er einhver heimild fyrir ríkið að kaupa Auðkenni er það gott og blessað. Þegar umræðan um rafræna auðkenningu átti sér stað var það svo sem aldrei inni í myndinni að það ætti að vera einkafyrirtæki sem héldi utan um það. En svo vildi svo skemmtilega til að þeir menn sem höfðu talað hvað mest fyrir því að setja þessa auðkennaveitu á laggirnar samkvæmt lögum, stofnuðu Auðkenni. Og þá var allt í einu best fyrir ríkið að Auðkenni myndi sjá um þessa rafrænu auðkenningu.

Eins og staðan er núna máttu tæknilega séð velja á milli þess að vera með rafræn skilríki eða ekki. Ég sem einstaklingur sem lengi vel var ekki með rafræn skilríki, rak mig á margar, erfiðar hindranir innan margra kerfa. Þannig að ég velti fyrir mér hvar valið muni liggja: Munu öll þurfa að vera með skilríki sín rafrænt í símanum eða mun vera hægt að gera þetta upp á gamla mátann samt sem áður? Þannig að ég velti því fyrir mér nauðsyn og mikilvægi þess að geta verið með rafræn skilríki.

Svo átta ég mig ekki alveg á hvernig þetta tengist inn í hættulega, skipulagða glæpastarfsemi á tækniöld. Ég myndi halda að þetta myndi auka líkurnar á því að hægt væri að stela auðkennum með auðveldari hætti.

Þetta er helst það sem ég hnýt um, að öryggi er alls konar og við höfum öll mismunandi sýn á hvað telst vera öruggt. Mig langar endilega að heyra hvernig íslenska ríkið telur sig vera í stakk búið til að tryggja öryggi rafrænna skilríkja.